Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 216  —  172. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur um skattfríðindi í skjóli laga um alþjóðleg viðskiptafélög.

     1.      Hvaða fyrirtæki eða félög njóta skattfríðinda í skjóli laga um alþjóðleg viðskiptafélög, nr. 31/1999?
    Á grundvelli laganna hafa verið gefin út starfsleyfi til eftirtalinna ellefu félaga:
          1.      Ardavon ehf. av. Leyfi útgefið 6. september 1999.
          2.      Bakkavör ehf. av. Leyfi útgefið 22. september 2000.
          3.      Borealis ehf. av. Leyfi útgefið 12. ágúst 1999.
          4.      Fjarskiptafélag Íslands ehf. av. Leyfi útgefið 16. desember 1999.
          5.      Hub ITC ehf. av. Leyfi útgefið 12. desember 2000.
          6.      INDÍS ehf. av. Leyfi útgefið 22. nóvember 1999.
          7.      Mýrkjartan ehf. av. Leyfi útgefið 20. júní 2000.
          8.      Nascom ehf. av. Leyfi útgefið 9. október 2001.
          9.      Ninety Nine Agency ehf. av. Leyfi útgefið 6. september 1999.
          10.      Scandsea International ehf. av. Leyfi útgefið 6. september 1999.
          11.      Unifish ITC ehf. av. Leyfi útgefið 22. febrúar 2000.

     2.      Á hvaða sviði starfa þessi fyrirtæki og félög?
    Helstu athafnasvið fyrirtækjanna eru kaup og sala sjávarafurða sem upprunnar eru utan Íslands, milliganga um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila, þar á meðal fjarskiptaþjónustu, og fjárfestingar og eignarhald í erlendum fyrirtækjum og annars konar eignarréttindum erlendis.

     3.      Hve margir starfsmenn starfa á þeirra vegum hér á landi?
    Ráðuneytið hefur ekki undir höndum upplýsingar um starfsmannafjölda félaganna. Flest félaganna hafa einungis starfað um skamma hríð. Starfsemi margra þeirra hefur því enn ekki náð því umfangi sem að er stefnt. Því má ætla að starfsmannafjöldi alþjóðlegra viðskiptafélaga sé óverulegur enn sem komið er.

     4.      Hvernig hafa Íslendingar hagnast af veru þessara fyrirtækja og félaga hér á landi?

    Rétt er að benda á að í flestum tilvikum er um að ræða starfsemi sem ella færi ekki fram hérlendis. Starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga er því almennt hrein viðbót við íslenskt atvinnulíf. Alþjóðleg viðskiptafélög kaupa vöru og þjónustu af innlendum aðilum vegna starfsemi sinnar og greiða skatta og önnur opinber gjöld til ríkisins. Eins og áður var nefnt er starfsemi flestra alþjóðlegra viðskiptafélaga þó enn að slíta barnsskónum. Því er ráðlegt að ætla að þjóðhagslegur ávinningur af tilvist þessara fyrirtækja sé ekki enn að fullu kominn fram.

     5.      Hver verður réttur þessara aðila ef lög um alþjóðleg viðskiptafélög verða numin úr gildi?
    Ef ákvörðun yrði tekin um brottfellingu laga nr. 31/1999 yrði Alþingi, eðli máls samkvæmt, að taka afstöðu til þess í lögum hver yrði réttarstaða þeirra sem fengið hefðu starfsleyfi samkvæmt hinum brottfelldu lögum.