Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 219  —  89. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um greiðslur til sveitarfélaga vegna jarðskjálfta.

     1.      Hefur verið tekinn saman sá kostnaður sem féll á sveitarfélög vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000? Ef svo er, um hvaða upphæðir er að ræða og hver var kostnaður hvers sveitarfélags?
    Kostnaður sveitarfélaga vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000 hefur ekki verið tekinn saman af hálfu Viðlagatryggingar Íslands eða hann bættur þar sem ekki er um bótaskyldu að ræða af hálfu Viðlagatryggingar. Viðlagatrygging hefur aftur á móti bætt tjón á tryggðum eignum og mannvirkjum sveitarfélaga á sama hátt og hjá öðrum tjónþolum, en ekki annan kostnað sveitarfélaga. Stofnunin telur sér óheimilt að láta í té upplýsingar um bótafjárhæðir vegna einstakra eigna sveitarfélaganna.
    Hvað varðar önnur tjón sveitarfélaga liggur fyrir að hreppsnefnd Biskupstungna hefur farið þess á leit við stjórnvöld að þau taki þátt í að bæta sveitarfélaginu útgjöld sem stofna varð til vegna Vatnsveitu Biskupstungnahrepps í kjölfar skjálftanna. Þeirri framkvæmd er nú lokið og er heildarkostnaður áætlaður ríflega 35 millj. kr. Biskupstungnahreppur hefur leitað eftir styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að mæta þessum útgjöldum og standa væntingar til þess að sjóðurinn veiti allt að 14 millj. kr. til framkvæmdarinnar í janúar á næsta ári. Lagt var til að ríkisstjórnin styrkti Biskupstungnahrepp um 15 millj. kr. vegna þessa.

     2.      Hefur sveitarfélögunum verið bættur þessi kostnaður? Ef svo er, um hvaða upphæðir er að ræða, sundurliðað eftir sveitarfélögum?

    Afgreiddir hafa verið styrkir til tveggja sveitarfélaga, samtals 12,5 millj. kr. Umsóknir hafa borist frá fleiri sveitarfélögum og bíða þær afgreiðslu.