Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 228  —  203. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53 24. maí 1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi mál verið höfðað skv. 1. mgr. getur dómari ákveðið samkvæmt kröfu að fresta réttaráhrifum gerðardóms meðan málið er leitt til lykta. Ákveða má að slík frestun sé bundin því að lögð sé fram trygging fyrir efndum skuldbindingar samkvæmt gerðardóminum. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal tekin með úrskurði sem kæra má til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum laga um meðferð einkamála.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Um aðförina fer eftir sömu reglum og gilda um dóma uppkveðna af íslenskum dómstólum og sáttir sem komist hafa á fyrir þeim.

3. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um aðför til fullnustu gerðardóms skv. 1. eða 2. mgr. fer eftir sömu reglum og gilda um aðför til fullnustu erlendra dómsúrlausna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53 24. maí 1989, til að unnt verði að fullgilda samning um viðurkenningu og fullnustu á erlendum gerðardómum, sem gerður var í New York 10. júní 1958 og tók gildi 7. júní 1959. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um aðför til fullnustu á úrlausnum gerðardóma og sáttum gerðum fyrir þeim.
    Samningurinn um viðurkenningu og fullnustu á erlendum gerðardómum hefur hlotið miklar undirtektir meðal ríkja. Aðildarríki samningsins eru nú 121 og eru þar á meðal öll vestræn ríki. Af samningnum leiðir að samningsríkjunum ber að viðurkenna erlenda gerðardóma þannig að þeir öðlist réttaráhrif og verði fullnægt í samræmi við réttarfarsreglur þar sem fullnustu er leitað. Bráðabirgðaþýðing af samningnum er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu. Gert er ráð fyrir því að á næstunni verði lögð fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda framangreindan samning.
    Samkvæmt 6. gr. samningsins er gert ráð fyrir að fresta megi ákvörðun um fullnustu gerðardóms ef krafist hefur verið ógildingar á gerðardómi. Einnig er gert ráð fyrir að ákveða megi að ósk þess aðila sem leitar fullnustu gerðardóms að gagnaðilanum beri að leggja fram viðeigandi tryggingu. Til að tryggja að íslensk lög séu í fullu samræmi við þetta ákvæði samningsins er lagt til að ný málsgrein bætist við 12. gr. laganna um heimild dómara, sem fer með mál til ógildingar á gerðardómi, til að fresta réttaráhrifum gerðardóms og binda slíka frestun við að lögð verði fram trygging fyrir efndum skuldbindingar samkvæmt gerðardómi. Að öðru leyti er unnt á grundvelli gildandi laga að fullnægja þeim skuldbindingum sem felast í samningnum.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði laganna hafi að geyma ítarlegri tilvísun til laga um aðför, nr. 90/1989, en nú eru fyrir hendi, þannig að ljóst verði eftir hvaða reglum þeirra laga gerðardómi verði fullnægt með aðför. Ákvæði gildandi laga eru að þessu leyti ófullnægjandi.



Fylgiskjal I.


Bráðabirgðaþýðing á samningi um
viðurkenningu og fullnustu á erlendum gerðardómum.


1. gr.


1.     Samningur þessi gildir um viðurkenningu og fullnustu á gerðardómum sem kveðnir eru upp í öðru ríki en því sem viðurkenningar þeirra og fullnustu er leitað og til eru komnir vegna ágreinings manna eða lögpersóna. Hann gildir einnig um gerðardóma sem ekki eru taldir innlendir í því ríki þar sem viðurkenningar og fullnustu er leitað.
2.     Til gerðardóma teljast ekki aðeins ákvarðanir gerðarmanna sem skipaðir eru til úrlausnar einstakra mála, heldur einnig ákvarðanir fastra gerðarstofnana sem aðilar hafa lagt mál sín fyrir.
3.     Við undirritun, fullgildingu eða aðild að samningi þessum, eða þegar tilkynnt er um útfærslu samkvæmt 10. gr., getur hvert ríki lýst því yfir á gagnkvæmnisgrundvelli að það muni láta samninginn gilda um viðurkenningu og fullnustu gerðardóma sem aðeins eru kveðnir upp í öðru samningsríki. Það getur einnig lýst því yfir að það muni aðeins láta samninginn gilda um ágreining í réttarsambandi, hvort sem það á rætur að rekja til samnings eða annars, sem telst til verslunarmála samkvæmt landslögum þess ríkis sem yfirlýsinguna veitir.

2. gr.


1.     Hvert samningsríki skal viðurkenna skriflegan samning, þar sem aðilar skuldbinda sig til að leggja í gerð hvern þann ágreining sinn, sem risið hefur eða rísa kann milli þeirra í tilteknu réttarsambandi, hvort sem það á rætur að rekja til samnings eða annars, enda sé sakarefnið þess eðlis að unnt sé að leysa úr því með gerð.
2.     Undir hugtakið „skriflegur samningur“ fellur gerðarákvæði í gerðarsamningi eða öðrum samningi, sem aðilar hafa undirritað eða kemur fram í bréfa- eða símskeytasendingum þeirra á milli.
3.     Dómstóll í samningsríki, sem hefur til meðferðar mál er aðilar hafa gert samning um í skilningi þessarar greinar, skal að kröfu einhvers aðilanna vísa málinu í gerð, nema hann telji samninginn ógildan, óvirkan eða óframkvæmanlegan.

3. gr.


    Hvert samningsríki skal viðurkenna gerðardóm sem bindandi og fullnusta hann í samræmi við réttarfarsreglur á því landsvæði þar sem byggt er á dómi, samkvæmt þeim reglum sem kveðið er á um í eftirfarandi greinum. Ekki má setja strangari skilyrði eða leggja á hærri gjöld fyrir viðurkenningu og fullnustu gerðardóma sem samningur þessi tekur til, en gildir um viðurkenningu og fullnustu innlendra gerðardóma.

4. gr.


1.     Til að afla viðurkenningar og fullnustu samkvæmt undanfarandi grein skal sá aðili, sem leitar viðurkenningar og fullnustu, leggja fram með beiðni sinni:
     a.      réttilega staðfest frumrit eða afrit gerðardómsins,
     b.      frumrit samnings eða réttilega staðfest afrit samnings þess sem fjallað er um í 2. gr.
2.     Ef gerðardómurinn eða samningurinn er ekki á opinberu tungumáli þess lands þar sem á honum er byggt skal sá aðili sem leitar viðurkenningar hans og fullnustu leggja fram þýðingu þeirra skjala á það tungumál. Þýðingin skal staðfest af opinberum eða eiðfestum þýðanda, af sendifulltrúa í utanríkisþjónustu, eða af ræðismanni.

5. gr.


1.     Aðeins má hafna viðurkenningu og fullnustu gerðardómsins að kröfu þess aðila sem hann beinist gegn, ef sá aðili veitir viðkomandi yfirvaldi þar sem viðurkenningar og fullnustu er leitað sönnun fyrir því að:
     a.      aðilar að samningi þeim sem fjallað er um í 2. gr. hafi samkvæmt þeim lögum sem um þá giltu skort hæfi með einhverjum hætti eða að samningurinn hafi ekki verið gildur samkvæmt þeim lögum sem aðilarnir hafa ákveðið að um hann giltu, eða, ef engar vísbendingar eru um það, samkvæmt lögum þess lands þar sem gerðardómurinn var kveðinn upp, eða
     b.      aðila þeim sem gerðardómurinn beinist gegn hafi ekki réttilega verið tilkynnt um skipun gerðarmanns eða um gerðardómsmeðferðina, eða að honum hafi af öðrum ástæðum verið ókleift að skýra mál sitt, eða
     c.      gerðardómurinn fjalli um ágreining sem skilmálar um gerðardómsmeðferð hafi ekki gert ráð fyrir eða ekki fellur undir þá, eða að í gerðardóminum séu ákvarðanir um málefni utan sviðs skilmála um gerðardómsmeðferð, sem lögð hafa verið í gerð, enda verði viðurkenning og fullnusta veitt á þeim ákvörðunum sem fjalla um málefni innan þess sviðs, ef þær verða aðskildar frá þeim sem utan þess falla, eða
     d.      skipun gerðardómsins eða gerðardómsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við það sem aðilar sömdu um, eða ef um slíkt hefur ekki verið samið, hafi ekki verið í samræmi við lög þess lands þar sem gerðardómsmeðferð fór fram, eða
     e.      gerðardómur sé ekki enn orðinn bindandi fyrir aðilana, eða honum hafi verið vikið til hliðar eða ógiltur af til þess bæru yfirvaldi í ríki þar sem dómur er kveðinn upp, eða eftir þeim lögum sem um hann gilda.
2.     Viðurkenningu og fullnustu gerðardóms má einnig hafna ef viðeigandi yfirvald í því landi þar sem viðurkenningar og fullnustu er leitað telur að:
     a.      sakarefnið sé ekki þannig að úr því verði leyst með gerð samkvæmt lögum þess lands, eða
     b.      viðurkenning og fullnusta gerðardómsins væri andstæð grundvallarreglum þess lands.

6. gr.


    Hafi kröfu um ógildingu eða frestun á gildistöku gerðardómsins verið lögð fyrir það viðeigandi yfirvald sem fjallað er um í e-lið 1. mgr. 5. gr. getur það yfirvald sem leitað er til af þeim sem vill byggja á gerðardómnum frestað ákvörðun um fullnustu hans telji það rétt að gera svo. Einnig getur það yfirvald að ósk þess aðila sem leitar fullnustu gerðardómsins gert gagnaðilanum að leggja fram viðeigandi tryggingu.

7. gr.


1.     Ákvæði samnings þessa hafa hvorki áhrif á gildi fjölþjóða eða tvíhliða samninga sem aðilar að samningi þessum hafa gert um viðurkenningu og fullnustu gerðardóma, né skulu þau svipta þann sem hagsmuna hefur að gæta rétti til að nýta sér gerðardóm með þeim hætti og að því marki sem lög eða þjóðréttarsamningar heimila í því landi þar sem leitast er við að byggja á honum.
2.     Genfarbókun um gerðardómsskilmála frá 1923 og Genfarsamningur um fullnustu erlendra gerðardóma frá 1927 skulu ekki lengur hafa gildi milli samningsríkja er þau verða bundin af samningi þessum og að því maki sem þau verða bundin af honum.

8. gr.


1.     Fram til 31. desember 1958 skal samningur þessi liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja að Sameinuðu þjóðunum, og einnig af hálfu hvers þess ríkis sem nú er eða síðar verður aðili að einhverri sérstofnun Sameinuðu þjóðanna eða samþykktum Alþjóðadómstólsins, eða ríkis sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna býður aðild.
2.     Samningur þessi er háður fullgildingu, og skal fullgildingarskjal afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

9. gr.


1.     Samningur þessi er opinn til aðildar þeim ríkjum sem fjallað er um í 8. gr.
2.     Aðild gerist með því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

10. gr.


1.     Hvert ríki getur við undirritun og fullgildingu samningsins lýst því yfir að gildi hans skuli einnig ná til allra eða einhverra þeirra landsvæða sem það er ábyrgt fyrir hvað alþjóðasamskipti snertir. Slík yfirlýsing öðlast gildi þegar samningurinn öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki.
2.     Hvenær sem er síðar skal slík útvíkkun samningsins fara fram með tilkynningu stílaðri til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og skal hún öðlast gildi frá og með nítugasta degi eftir þann dag er aðalframkvæmdastjórinn veitir yfirlýsingunni viðtöku, eða frá og með þeim degi er samningurinn öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki, hvort sem síðar er.
3.     Hvað snertir þau landsvæði sem gildi samnings þessa er ekki látið ná til við undirritun, fullgildingu eða aðild skal hvert viðkomandi ríki íhuga möguleika á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að færa gildi samningsins út til þeirra, með fyrirvara um samþykki ríkisstjórna þeirra ef stjórnskipulegar ástæður krefjast.

11. gr.


    Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um sambandsríki eða ríki sem ekki eru ein heildareining:
     a.      Hvað snertir þau ákvæði samningsins sem falla undir löggjafarvald sambandsríkisins skulu skuldbindingar þess að því marki vera hinar sömu og þeirra samningsríkja sem ekki eru sambandsríki.
     b.      Hvað snertir þau ákvæði samningsins sem falla undir löggjafarvald þeirra ríkja eða landa sem sambandið mynda en ekki ber samkvæmt stjórnskipun sambandsins að gera ráðstafanir á sviði löggjafar, skal sambandsríkið vekja athygli viðeigandi yfirvalda þeirra á þeim ákvæðum og leggja fram við þau meðmæli sín eins fljótt og auðið er.
     c.      Sambandsríki sem er aðili að samningi þessum skal að ósk hvaða annars samningsríkis sem er, framsendri fyrir milligöngu aðalritara Sameinuðu þjóðanna, láta í té greinargerð um lög og réttarframkvæmd sambandsins og þeirra eininga sem það mynda varðandi hvaða einstakt ákvæði samnings þessa sem er, sem sýnir að hvaða marki viðkomandi ákvæði hefur verið gert virkt með ráðstöfunum á sviði löggjafar eða öðrum ráðstöfunum.

12. gr.


1.     Samningur þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag er þriðja fullgildingar- eða aðildarskjal er afhent.
2.     Hvað snertir ríki sem fullgildir samning þennan eða gerist aðili að honum síðar en þriðja fullgildingar- eða aðildarskjal er afhent skal samningurinn öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag er fullgildingar- eða aðildarskjal þess er afhent.

13. gr.


1.     Hvert samningsríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.
2.     Hvert ríki sem afhent hefur yfirlýsingu eða tilkynningu samkvæmt 10. gr. getur hvenær sem er síðar lýst því yfir með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að einu ári eftir þann dag er tilkynningunni er veitt viðtaka skuli samningur þessi ekki lengur gilda um viðkomandi landsvæði.
3.     Samningur þessi skal halda gildi sínu um gerðardóma sem málsmeðferð til viðurkenningar eða fullnustu hefur þegar hafist um áður en uppsögn öðlast gildi.

14. gr.


    Samningsríki á ekki rétt á að bera fyrir sig samning þennan gagnvart öðrum samningsríkjum nema að því marki sem því er sjálfu skylt að framkvæma hann.

15. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna þeim ríkjum sem um getur í 8. gr. um eftirfarandi:
     a.      Undirritanir og fullgildingar samkvæmt 8. gr.,
     b.      aðildaryfirlýsingar samkvæmt 9. gr.,
     c.      yfirlýsingar og tilkynningar samkvæmt 1., 10. og 11. gr.,
     d.      gildistökudag samnings þessa samkvæmt 12. gr.,
     e.      uppsagnir og tilkynnningar samkvæmt 13. gr.

16. gr.


1.     Samningur þessi, en kínverskur, enskur, franskur, rússneskur og spánskur texti hans eru jafngildir, skal falinn skjalasafni Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda staðfest afrit samningsins til þeirra ríkja sem um getur í 8. gr.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa.


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


um samningsbundna gerðardóma, nr. 53 24. maí 1989.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, til að unnt verði að fullgilda samning um viðurkenningu og fullnustu á erlendum gerðardómum sem gerður var í í New York 10. júní 1958. Lögfesting frumvarpsins hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.