Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 259  —  232. mál.
Tillaga til þingsályktunarum bann við flutningi jarðefnaeldsneytis eftir Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.

Flm.: Hjálmar Árnason, Sigríður Jóhannesdóttir.    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að grípa til ráðstafana sem banna flutning jarðefnaeldsneytis eftir Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að dómsmálaráðherra grípi til þeirra ráðstafana sem banni að jarðefnaeldsneyti verði flutt eftir Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.
    Vatnsból Suðurnesjamanna eru afar viðkvæm fyrir mengun á landi. Veldur þar mestu jarðfræði svæðisins en vatnsverndarsvæði Suðurnesja eru á hraunbelti. Slíkt jarðlag er gljúpt og hleypir vökva léttilega í gegn. Á árinu 1998 voru farnar 3.359 ferðir um Reykjanesbraut með olíu og flugvélabensín, samtals 136.780 tonn, og hafði þá ferðum fjölgað um 1000 frá árinu 1995, eða 46.000 tonn. Í ljósi spár um vaxandi straum ferðamanna til landsins má ætla að þessi aukning muni halda áfram.
    Allur flutningur olíu á fiskiskipaflota Grindvíkinga fer um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg. Þar er ekið nánast ofan á meginvatnsbóli Suðurnesja og í örskotsfjarlægð frá vatnsbólum Vogamanna. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja metur það svo að yrði óhapp á fullhlöðnum olíuflutningabíl á umræddu svæði mundi það eyðileggja vatnsból Suðurnesja í áratugi. Þar með skapaðist neyðarástand á heimilum og í atvinnulífi svæðisins. Flutningsmenn telja að hagsmunir séu svo miklir að enga áhættu megi taka í þessum efnum og beina þess vegna þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að gripið verði strax til aðgerða sem banni flutning á olíu og bensíni eftir fyrrgreindum vegum.
    Til viðbótar þeirri hættu sem vatnsbólum Suðurnesja stafar af olíuflutningunum má benda á gífurlegt slit á vegum sem þungaflutningar af þessum toga valda. Bent hefur verið á að einn fullhlaðinn olíubíll slíti vegum á við nokkrar þúsundir fólksbifreiða. Kostnaður vegna þessa er hár og greiðist af almannafé. Þá eru ónefnd óþægindi og hættur sem mikið slit og rásir á vegum valda í umferð.
    Nú er um það bil að ljúka miklum hafnarframkvæmdum í Grindavíkurhöfn þar sem innsiglingin verður mun léttari og hættuminni. Þá benda flutningsmenn á góða aðstöðu sem er fyrir olíugeyma í Helguvík. Þess vegna hlýtur að vera skynsamlegt með hliðsjón af almannahagsmunum og öryggi að beina umræddum eldsneytisflutningum sjóleiðina til Helguvíkur og Grindavíkur. Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að dómsmálaráðherra beiti sér fyrir slíkum aðgerðum.
    Kunni reglur um jöfnunarsjóð olíuflutninga að vera hindrun fyrir slíkum breytingum væri ekki óeðlilegt að breyta þeim þannig að jöfnunargjaldið verði greitt út þótt dreifing út á land eigi sér stað sjóleiðis.
    Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 20. október 2001 var samþykkt áskorun til stjórnvalda um bann við flutningum olíu og bensíns eftir Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Þingsályktunartillaga þessi er í samræmi við þá samþykkt.