Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 260  —  233. mál.
Tillaga til þingsályktunarum mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásta Möller, Hjálmar Árnason,


Þuríður Backman, Guðrún Ögmundsdóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd er hafi það hlutverk að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana. Jafnframt verði gert árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til þess að tryggja sjúklingum sem mestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.

Greinargerð.


    Allir þekkja dæmi um neikvæðar afleiðingar af neyslu áfengis og vímuefna. Til þess að bregðast við hefur hið opinbera byggt upp margs konar úrræði á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar. Mikilvægt er að vel takist til á þessu sviði svo að unnt sé að ýta burtu þeirri vá sem ofneysla vímuefna er allt of víða. Til þess að sem best megi takast til er brýnt að standa vel að verki og ganga skipulega til verks. Þannig er helst hægt að ná árangri í glímunni við neikvæðar afleiðingar vímu og áfengisneyslu. Hér er líka um umtalsvert fjárhagslegt atriði að ræða. Framlög ríkissjóðs til meðferðarstofnana hvers konar voru um 713 millj. kr. í fyrra. Við þetta bætast sértekjur sem hafa verið nokkuð mismunandi frá ári til árs og námu um 32 millj. kr. árið 2000. Enn fremur er ljóst að mikið sjálboðaliðsstarf er unnið á þessu sviði og er mikilvægt að það sé virkjað áfram. Þetta á ekki síst við um meðferðar-, áfanga- og gistiheimilin sem mörg hver eru rekin af áhugahreyfingum og trúarhreyfingum.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er einkanlega að stuðla að markvissara starfi til þess að sem mestur árangur náist og tryggja að sem best sé farið með fjármagn sem til þessa málaflokks er varið.

Fjölþætt starfsemi.
    Til þess að varpa ljósi á stöðu þessara mála hér á landi var á síðasta þingi lögð fram beiðni til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skýrslu um meðferðarstofnanir. Skýrsla þessi er stórfróðlegt yfirlit um umfang þessarar starfsemi, einstakar stofnanir, fjölda þeirra, rekstrargjöld og hvernig meðferð þær bjóða upp á. Í skýrslunni segir meðal annars:
    „Ljóst er að stofnanirnar eru mjög mismunandi, allt frá áratugagömlum geðdeildum ríkisspítala til nýopnaðra vistheimila á vegum áhugasamtaka. Sumar stofnanirnar teljast til heilbrigðisstofnana, aðrar ekki.
    Aukinn fíkniefnavandi einkennir starfsemina alla og þótt þungi áfengismeðferðar sé mikill hefur hlutfall annarra fíkniefna aukist mjög.
    Vandi vímuefnaneytenda er margvíslegur, bæði líkamlegur, andlegur og félagslegur. Mismunandi úrræði henta hverjum og einum og því eru úrlausnir bæði á sviði heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálayfirvalda.
    Á undanförnum árum hefur verið reynt að sporna við þessari þróun með margvíslegum hætti. Skal þar sérstaklega bent á aukna áherslu á forvarnir, einkum meðal barna og ungmenna, stefnumótun í málefnum langveikra barna, stefnumótun í málefnum geðsjúkra og sérstaka vinnu að málefnum geðsjúkra barna, en börn og unglingar með geðræn vandamál eru einna líklegust til að lenda í glímu við áfengis- og vímuefnavanda síðar á lífsleiðinni. Þá hefur meðferðarúrræðum verið fjölgað, svo sem með nýrri unglingadeild á Vogi, komið upp bráðamóttöku á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, Barnaverndarstofu og SÁÁ, auk þess sem komið hefur verið á virku samráði þessara aðila, sérstaklega að því er varðar vandamál barna og unglinga. Þá hefur Forvarnasjóður styrkt ýmis forvarna- og meðferðarverkefni, einkum nýjungar og tilraunaverkefni á því sviði.
    Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um árangur meðferðar. Ljóst er að auka þarf áherslu á árangursmat hinna ýmsu meðferðarstofnana og meðferðarleiða til að tryggja sjúklingum sem bestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.“
    Meðferðarúrræðum hefur fjölgað mjög á síðustu árum og áratugum, jafnframt því sem þau hafa orðið fjölþættari. Hér áður fyrr var algengt að fólk leitaði sér aðstoðar á meðferðarstofnunum erlendis. Nú er það nær aflagt. Samkvæmt skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fór enginn á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, TR, í vímuefnameðferð erlendis á árunum 1995, 1997, 1998 og 1999, en einn árið 1996. Þá mun einn hafa farið á kostnað TR í fyrra.

Yfirlit yfir stofnanir.
    
Athygli vekur hversu margar meðferðarstofnanir eru til. Hér verður veitt örstutt yfirlit yfir þessar stofnanir, sem byggt er á skýrslunni um meðferðarstofnanir og fyrr er getið um:
    Á vegum Landspítalans – háskólasjúkrahúss er um margþætta starfsemi að ræða. Starfræktar eru göngu-, meðferðar- og dagdeildir á vegum sjúkrahússins.
    SÁÁ sem starfað hefur síðan 1977 rekur ýmsa sjúkra- og þjónustustarfsemi fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Í skýrslunni kemur fram að um sé að ræða eftirtalda starfsemi og staði: Vogur, Vík, Staðarfell, göngudeild í Reykjavík, sambýli í Reykjavík, göngudeild á Akureyri, áfangahúsið Fjólan á Akureyri og unglingadeildir.
    Samhjálp hvítasunnumanna rekur Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal og rekur fjölþætta starfsemi að Hverfisgötu 42 í Reykjavík þar sem meðal annars er stoðbýli, göngudeild, kaffistofa, súpueldhús, félagsmiðstöð og hjálparstarf fyrir konur.
    Krýsuvíkursamtökin hafa starfað frá árinu 1986 og loks má nefna Víðines.
    Ef meðferðarstofnanir eru sérstaklega skoðaðar eru þær samkvæmt yfirliti skýrslunnar Árvellir á Kjalarnesi sem Götusmiðjan rekur, Byrgið sem er rekið af kristilegum samtökum og Krossgötur sem trúfélagið Krossinn stofnaði.
    Áfangaheimili sem veita stuðning og ráðgjöf eru Takmarkið, stoðbýli Samhjálpar, Fjólan á Akureyri, Dyngjan sem er áfangaheimili fyrir konur, SÁÁ við Eskihlíð og Miklubraut, Risið í Reykjavík og áfangaheimilið Vernd.
    Loks er að nefna gistiheimilin sem fyrst og fremst bjóða upp á athvarf og húsaskjól. Þar er um að ræða Gistiskýli Reykjavíkurborgar og sjálfseignarstofnunina Þrepið.
    Barnaverndarstofa er með rekstrarsamning við þrjár einkareknar meðferðarstofnanir sem allar sérhæfa sig í vímuefnavandamálum. Þær eru Árvellir á Kjalarnesi, Laugaland í Eyjafirði og Meðferðarheimilið á Jökuldal. Að auki rekur Barnaverndarstofa eftirtalin heimili þar sem einnig eru til meðferðar unglingar sem eiga við vímuefnavanda að etja: Hvítárbakki í Borgarfirði, Háholt í Skagafirði, Árbót/Berg í Aðaldal í Þingeyjarsýslu, Geldingalækur á Rangárvöllum, Torfastaðir í Biskupstungum.
    Stöðugildi þessara stofnana og heimila eru alls 279 á alls um 30 stofnunum, heimilum og deildum. Fram kemur í skýrslunni að þeir sem að áfengis- og vímuefnameðferð starfi vinni samkvæmt mismunandi áherslum. Engu að síður segir þar að um verulega skörun sé að ræða.

Umtalsverður kostnaður.
    Kostnaður vegna reksturs hefur vaxið árlega með vaxandi umfangi. Séu rekstrarútgjöld stofnana, fjárveitingar og sértekjur settar á 100 árið 1993 er ljóst að þau hafa aukist um rösk 44% til ársins 2000. Hér er um raunhækkun að ræða.
    Í skýrslunni kemur fram að ekki séu tiltækar upplýsingar um heildarfjárfestingu vegna þessara stofnana. Vekur það athygli í ljósi þess að framlög ríkisins standa a.m.k. að nokkru undir fjárfestingunni. Einnig er ástæða til þess að vekja athygli á því sem þar segir að ekki hafi tekist að safna upplýsingum frá stofnunum sem eru utan fjárlaga en njóta meðal annars fjárhagslegs stuðnings frá sveitarfélögum og úr Forvarnasjóði.
    Í meðfylgjandi töflu úr skýrslunni er ljósi varpað á heildarkostnað vegna meðferðarstofnana á árunum 1993–2000. Kemur þar fram að kostnaður hefur vaxið árlega og var um 740 millj. kr. í fyrra. Hafði kostnaðurinn þá vaxið um 156 millj. kr. á föstu verðlagi á þessu árabili.

Heildarkostnaður meðferðarstofnana 1993–2000 í þús. kr.

Ár Landspítali SÁÁ Hlaðgerðarkot Krýsuvík Samtals
1993 183.693 297.027 73.018 32.209 585.947
1994 191.276 328.610 55.662 43.331 618.880
1995 187.637 328.769 59.922 44.169 620.497
1996 201.122 342.310 52.062 40.488 635.982
1997 202.310 358.576 54.166 27.024 642.076
1998 210.424 347.172 54.275 30.150 642.021
1999 220.583 374.642 51.681 37.208 684.113
2000 227.019 461.308 53.700 0 742.027

    Taflan sýnir heildarkostnað meðferðarstofnana án sértekna, þ.e. samanlagðan launakostnað og annan kostna ð.

Hver er árangurinn?
    Í skýrslunni er farið nokkrum orðum um árangurinn af meðferð á hinum ýmsu meðferðarstofnunum. Er þar meðal annars vitnað til rannsóknar dr. med. Kristins Tómassonar á árangri meðferðar sjúklinga sem höfðu verið á deildum Landspítalans og á Vogi. Þar kom meðal annars í ljós að 16% sjúklinga héldu bindindi í 28 mánuði. Þá segir í skýrslunni:
    „Ekki liggja fyrir aðrar nýlegar marktækar rannsóknir á árangri meðferðar á öðrum stofnunum.
    Sum meðferðarheimilin leggja mikla áherslu á að vistin sem slík sé árangur í sjálfu sér, þar eð einstaklingurinn njóti þar skjóls, góðs mataræðis og umönnunar í stað þess að vera á vergangi, einangraður, húsnæðislaus og jafnvel í afbrotum.
    Telja verður að aukna áherslu þurfi að leggja á árangursmat ýmissa meðferðarstofnana og meðferðarleiða svo að nýting fjármagns verði sem best og sem flestum einstaklingum til hagsbóta. Einnig er ljóst að stefna þarf áfram að því að bæta árangur meðferðar við ávana- og vímuefnanotkun.“
    Undir þetta er sjálfsagt að taka og því er lagt til í síðari efnisþætti þingsályktunartillögunnar að gert verði árangursmat á meðferðarstofnunum.

Fylgiskjal.

Stöðugildi á einstökum stofnunum.
(Úr skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um meðferðarstofnanir,
samkvæmt beiðni, þskj. 1255, 28. mál 126. löggjafarþings.)


Stofnun Stöðugildi 31/12 1999

Samtals

Landspítali samtals 67
    Sameiginleg deild 20
    Legudeild 33A 23
    Göngudeild 32E 5
    Dag- og legudeild, Flókagötu 8
    Gunnarsholt 11
Hlaðgerðarkot 11
SÁÁ samtals 85
    Vogur 50
    Vík 8
    Staðarfell 8
    Göngudeild, Reykjavík 13
    Göngudeild, Akureyri 6
Krýsuvík 9
Ýmis áfanga- og meðferðarheimili 23
    Byrgið 3
    Krossgötur 5
    Dyngjan, Snekkjuvogi 1
    Takmarkið 1
    Stoðbýli Samhjálpar 1
    Súpueldhús Samhjálpar 3
    Risið 2
    Vernd 2
    Gistiskýli Reykjavíkurborgar 4
    Þrepið 1
Meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu 84
    Stuðlar 25
    Árvellir 12
    Varpholt (nú Laugaland) 4
    Meðferðarheimilið Jökuldal 5
    Hvítárbakki 6
    Háholt 12
    Árbót/Berg 12
    Geldingalækur 4
    Torfastaðir 4
Heimild: Upplýsingar frá viðkomandi rekstraraðilum. Þó er óvissa um stöðugildi hjá ýmsum áfanga- og meðferðarheimilum, m.a. vegna sjálfboðavinnu.