Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 262  —  235. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að verja vatnsból sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Flm.: Kristján Pálsson, Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að gera þær ráðstafanir við Grindavíkurveg að vatnsbólum Suðurnesjamanna stafi ekki hætta af olíuflutningum eftir veginum.

Greinargerð.


    Flutningsmenn þessarar tillögu telja nauðsynlegt að umhverfisyfirvöld geri nauðsynlegar ráðstafanir til að verja vatnsból Suðurnesjamanna fyrir hættu af mengunarslysum vegna olíuflutninga um svæðið. Um er að ræða vatnsbólssvæði að Lágum við Grindavíkurveg. Þetta eru vatnsból allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum, þ.e. Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga, auk varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Íbúar sveitarfélaganna eru um 21.000, en þar er einnig mikil atvinnustarfsemi.
    Á 5 km kafla þar sem Grindavíkurvegur liggur yfir vatnsból Suðurnesjamanna þarf ekki nema eitt slys svo að vatnsból spillist. Vatnsbólið er undir hrauni og liggur Grindavíkurvegurinn þar yfir en hraunið er mjög lekt. Það er því talið ómögulegt ef olíuslys verður á þessum kafla að ná olíunni upp aftur því hún á greiða leið niður í gegnum hraunið í neysluvatnið á nokkrum mínútum. Ráðstafanir sem að gagni geta komið eru að útbúa sandföng og manir eða skipta um jarðveg þar sem vegurinn liggur yfir vatnsbólinu.
    Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur með bréfi 9. mars sl. farið þess á leit við Vegagerðina að komið verði upp viðvörunarskiltum á nokkrum stöðum við Grindavíkurveg, Reykjanesbraut og við Vogaafleggjara er gefi til kynna að um vatnsverndarsvæði sé að ræða og vegfarendur beðnir að sýna aðgát. Einnig er farið fram á að skiltin verði merkt heilbrigðiseftirliti Suðurnesja til að tryggja að þeim verði gert viðvart ef mengunarslys verður.