Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 289  —  148. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um innkaup heilbrigðisstofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið af útgjöldum heilbrigðisstofnana fór til tækjakaupa undanfarin fimm ár, aðgreint eftir árum?
     2.      Hversu mikið af innkaupunum var boðið út?
     3.      Hvernig var staðið að þeim innkaupum sem ekki voru boðin út?
     4.      Á vegum hverra fóru útboðin fram?
    Sambærilegar upplýsingar óskast um innkaup heilbrigðisstofnana á:
     a.      rekstrarvörum,
     b.      húsgögnum,
     c.      annarri nauðsynjavöru.


    Útgjöld heilbrigðisstofnana til tækjakaupa, húsgagna og annarra rekstrarvara eru samkvæmt eftirfarandi yfirliti, sem er samkvæmt upplýsingum úr ríkisbókhaldi.

Millj. kr. 1996 1997 1998 1999 2000
Lækninga- og rannsóknatæki
301,8 353,4 275,2 374,1 288,6
Húsgögn
69,0 33,7 59,1 75,7 99,1
Önnur vörukaup
4.416,0 4.649,8 4.855,9 5.205,9 5.055,7

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stofnaði Innkaupastofu heilbrigðisstofnana 1999 til að hagræða í innkaupum heilbrigðisstofnana. Er það gert m.a. með því að samræma innkaup allra heilbrigðisstofnana í landinu, þar með talin sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og hjúkrunar- og endurhæfingarheimili. Í þessum tilgangi hefur Innkaupastofan opnað sérstakan innkaupavef og hún sér um sameiginleg útboð fyrir heilbrigðisstofnanir.
    Markmiðið með innkaupavefnum er að stuðla að hagkvæmustu kaupum á fjárfestingar- og rekstrarvörum, svo og þjónustu fyrir heilbrigðisstofnanir, sem völ er á. Skrifstofa innkaupavefsins aðstoðar heilbrigðisstofnanir við gerð samninga um kaup á staðbundinni þjónustu.
    Með samkomulagi heilbrigðisráðuneytis, Landspítala – háskólasjúkrahúss og Ríkiskaupa frá 10. október 2000 var kveðið á um með hvaða hætti þessir aðilar ætluðu að starfa saman að útboðsmálum á hjúkrunar- og lækningarekstrarvörum. Í framhaldi af samkomulaginu hefur útboðum á þessum vörum fjölgað verulega til hagsbóta fyrir allar heilbrigðisstofnanir. Unnið er skipulega að því að bjóða út samkvæmt samkomulaginu og er nú verið að ljúka gerð tveggja ára áætlunar um útboð á vegum fyrrgreindra aðila.
    Upplýsingar um þá samninga, sem gerðir eru, koma fram á innkaupavefnum og þar geta heilbrigðisstofnanir nálgast upplýsingar um hvar einstakar vörur fást og á hvaða verði. Einnig geta stofnanirnar gert vöruinnkaup sín á þessum vef. Fjöldi stofnana notfærir sér nú þessa aðferð við innkaup á vörum og eru nú þegar um 130 kaupendur tengdir við vefinn. Verið er að vinna að innleiðingu netkaupa á þeim stofnunum sem ekki eru þegar tengdar og er stefnt að því að ljúka því verki fyrir árslok. Átján af stærstu birgjum heilbrigðisgeirans eru nú tengdir vefnum með samningsbundnar vörur sínar.
    Allar vörur, sem nú eru skráðar á vefinn, hafa verið boðnar út. Vöruheiti á innkaupavefnum eru nú tæplega þrjú þúsund. Eftir er að setja á vefinn allar matvörur og lyf sem þessar stofnanir nota. Unnið er daglega að auknu vöruframboði á vefnum.
    Eftir stofnun innkaupavefs heilbrigðisstofnana hafa stofnanirnar í auknum mæli nýtt sér rammasamninga Ríkiskaupa varðand kaup á ýmiss konar rekstrarvörum, áhöldum, tækjum og húsgögnum. Margar stofnanir nýta eingöngu rammasamningana um þær vörur sem þeir ná yfir.
    Ráðuneytið sendi fyrirspurn til allra heilbrigðisstofnana og fór fram á að þær veittu upplýsingar um hvernig staðið væri að innkaupum. Af svörum stofnana er ljóst að ekki liggur fyrir skráning á hvernig staðið er að innkaupum. Þau eru ýmist gerð að undangengnu formlegu útboði, verðkönnun, samkvæmt rammasamningi Ríkiskaupa eða gegnum innkaupavef heilbrigðisstofnana. Einnig er oft óskað eftir óformlegum tilboðum þegar ekki þykir tilefni til að gera sérstök útboðsgögn. Þegar um minni háttar og staðbundin innkaup er að ræða er reynt að ná hagstæðustu samningum sem völ er á hverju sinni, semja um afslátt o.fl.
    Ástæður þess að kaup á vörum eða tækjabúnaði eru ekki boðin út geta verið margs konar, t.d. að verðmæti sé undir viðmiðunarmörkum um útboð, varan sé mjög sértæk, eða verið sé að endurnýja tæki sem er hluti af ákveðnum tækjaflokki. Er það þá gert í samræmingarskyni og til að ná fram auknu öryggi í notkun. Þess er þó gætt að fylgt sé reglum um opinber innkaup.