Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 301  —  190. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um stuðning við frjálsa leikhópa.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að jafnræðissjónarmiða sé gætt í stuðningi við frjálsa leikhópa og opinberar menningarstofnanir, sbr. álit Samkeppnisstofnunar frá 5. mars sl. sem unnið var fyrir sjálfstæðu leikhúsin, en þar var þeim tilmælum beint til yfirvalda að þau gættu að jafnræðissjónarmiðum við eflingu leiklistar og talið að misræmi í opinberum stuðningi stríddi gegn markmiðum samkeppnislaga?
     2.      Hvaða frjálsu leikhópum er veittur stuðningur nú og hve mikill er hann, sundurliðað eftir leikhópum?
     3.      Hefur stuðningi við frjálsa leikhópa verið hafnað og þá á hvaða forsendum?


    Í áliti Samkeppnisstofnunar sem unnið var fyrir sjálfstæðu leikhúsin kemur fram sú skoðun að í stuðningi við frjálsa leikhópa og opinberar menningarstofnanir stangist á andstæð sjónarmið. Annars vegar að æskilegt sé að opinberir aðilar gæti jafnréttissjónarmiða í viðleitni sinni til að efla leiklist þannig að leikhús og leikhópar geti keppt á jafnréttisgrundvelli, en Samkeppnisráð telur að mikið misræmi í opinberum stuðningi gangi gegn markmiðum samkeppnislaga. Hins vegar felist í gildandi leiklistarlögum, nr. 138/1998, og fyrirkomulagi við úthlutun fjárveitinga til leiklistar af hálfu sveitarfélaga sú aðferð að styrkja tilteknar stofnanir til þess að ná þeim menningarlegu og uppeldislegu markmiðum sem að er stefnt.
    Með vísan til skýrslu um samkeppnisstöðu frjálsra leikhópa gagnvart opinberum leikhúsum, sem unnin var á vegum menntamálaráðuneytisins, beinir Samkeppnisráð þeim tilmælum til menntamálaráðherra að hann beiti sér fyrir endurskoðun á opinberri aðstoð við leikhúsrekstur og að leitað verði leiða til að samræma betur en nú er gert hin menningarlegu og listrænu markmið og markmið samkeppnislaga um að opinber fjárstuðningur raski ekki samkeppni á leikhúsmarkaðnum. Til dæmis nefnir ráðið þann kost að fjárstuðningi hins opinbera verði beint til einstakra verkefna í stað rekstrarstyrkja og launa fastráðinna starfsmanna leikhúsanna og að úthlutun þessara styrkja yrði í höndum óháðra aðila á samkeppnisgrundvelli, þar sem bæði sjálfstæð og opinber leikhús gætu sótt um fjárstuðning. Úr þessum tilmælum Samkeppnisráðs má lesa að gert sé ráð fyrir nefnd á vegum hins opinbera sem úthluti styrkjum á grundvelli umsókna vegna einstakra verkefna og því sé ákvörðunarvald leikhúsanna sjálfra um hvaða leikverk eru sett upp að engu gert. Þar af leiðandi mætti gera ráð fyrir að fastráðning leikara heyrði sögunni til og leikarar mundu í stað þess byggja starf sitt á þátttöku í mismunandi leikhópum á grundvelli einstakra verkefna.
    Ráðuneytið telur að skipan mála, sem byggðist á þessari túlkun á tilmælum Samkeppnisráðs, yrði leiklistarstarfsemi í landinu ekki til farsældar.
    Ráðuneytið starfar eftir núgildandi leiklistarlögum og hefur reynslan sýnt að íslensk leiklist hefur blómstrað við þá skipan mála sem stuðst hefur verið við frá setningu laganna árið 1998 og er gróskan hér meiri en í mörgum fjölmennari samfélögum.
    Til að koma til móts við vaxandi starfsemi frjálsra atvinnuleikhópa er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 lagt til að framlög til starfsemi atvinnuleikhópa verði 35 millj. kr., en það er 10 millj. kr. hækkun frá árinu 2001. Er þetta mesta hækkun milli ára sem orðið hefur, verði frumvarpið að þessu leyti samþykkt á Alþingi.
    Ráðuneytið hefur átt í viðræðum við leiklistarráð og fulltrúa sjálfstæðu leikhúsanna þar sem hefur verið lagt á ráðin um það hvernig best sé að samningsbinda samskipti þeirra og ríkisins til lengri tíma með það fyrir augum að skapa þeim traustari starfsgrundvöll. Leiklistarráð hefur nýlega sett sér vinnureglur og gefið út leiðbeiningar á netinu um styrki til leiklistarstarfsemi skv. 14. gr. leiklistarlaga. Ráðuneytið vinnur að reglum um starfsemi leiklistarráðs.
    Samkvæmt leiklistarlögum, nr. 138/1998, skal úthlutun til atvinnuleikhópa/frjálsra leikhópa ákveðin að fengnum tillögum leiklistarráðs. Á þessu ári hlutu eftirtaldir 14 leikhópar stuðning til 13 verkefna, alls að upphæð 25 millj. kr.:

Upphæð Verkefni
Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör

10,3 millj. kr.

Starfssamningur
Leikfélag Íslands
4,5 millj. kr. Starfsemi
Möguleikhúsið
1,5 millj. kr. Uppsetning nýrra íslenskra barnaleikrita
Strindberghópurinn
1,2 millj. kr. Uppsetning Dauðadansins
EGG-leikhúsið
1 millj. kr. Leikverk af verkefnalista leikhússins
Kaffileikhúsið og The Icelandic Take Away Theatre

1 millj. kr.

Samstarfsverkefni
Þíbilja
1 millj. kr. Uppsetning Gestsins
Strengjaleikhúsið
750 þús. kr. Uppsetning Skuggaleikhúss Ófelíu
Leikhúsið í kirkjunni
750 þús. kr. Uppsetning Ólafíu
Pars pro toto
750 þús. kr. Uppsetning Lady fish and chips
Íslenska leikhúsið
750 þús. kr. Uppsetning Gerplu
Evrópa
750 þús. kr. Uppsetning Mister man
Lipurtré
750 þús. kr. Uppsetning Fimm fermetra

    Þá var fyrr á þessu ári úthlutað samkvæmt ákvæðum núgildandi laga um listamannalaun, að fenginni umsögn leiklistarráðs, starfslaunum til eftirfarandi leikhópa:

Leikfélag Íslands
12 mánuðir
Möguleikhúsið
12 mánuðir
Norðuróp
12 mánuðir
EGG-leikhúsið
9 mánuðir
Hafnarfjarðarleikhúsið
9 mánuðir
Kaffileikhúsið og The Icelandic Take Away Theatre
9 mánuðir
Strindberg-hópurinn
9 mánuðir
Einleikhúsið/Sigrún Sól
8 mánuðir
Lipurtré
6 mánuðir
Þíbilja
6 mánuðir
Íslenska leikhúsið
4 mánuðir
Leikhúsið í kirkjunni
4 mánuðir

    Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma.
    Eftirfarandi leikhópar fengu synjun um styrk vegna starfsemi atvinnuleikhópa/frjálsra leikhópa:

Svöluleikhúsið
Draumasmiðjan
Leynileikhúsið
Dansleikhús með ekka
Leikhúsið 10 fingur
Halla Margrét Jóhannesdóttir
Stoppleikhópurinn
Furðuleikhúsið
Leikfélagið Regína
Sokio-leikhúsið
VIGMA
Jóhann F. Björgvinsson og Sveinbjörg Þórhallsdóttir
Einleikhúsið

    Samkvæmt leiklistarlögum byggir ráðuneytið úthlutun sína á tillögum leiklistarráðs. Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga hefur ekki verið leitað eftir rökstuðningi ráðsins fyrir ákvörðunum sínum, en í greininni segir m.a.:
    „Aðili máls getur krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.
    Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef:
     1.      umsókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti,
     2.      um er að ræða einkunnir sem veittar eru fyrir frammistöðu á prófum,
     3.      um er að ræða styrki á sviði lista, menningar eða vísinda.“