Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 451  —  272. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um grasmjölsframleiðslu.

    Í svörum við fyrirspurninni er ekki gerður greinarmunur á grasmjöli og graskögglum, og eru svörin eftirfarandi:

     1.      Hve mikið hefur verið framleitt af grasmjöli og graskögglum hér á landi árlega sl. þrjú ár og hver er birgðastaðan nú?
    Árið 1999 voru framleidd 2.689,5 tonn af graskögglum hér á landi, en árið 2000 voru framleidd um 1.190 tonn. Engin framleiðsla var árið 2001. Eftir því sem næst verður komist eru birgðir grasköggla nú um 700 tonn af innlendri framleiðslu.

     2.      Hversu mikið hefur verið flutt inn og út af grasmjöli, hreinu og í fóðurblöndum, sl. þrjú ár?
    Innflutningur grasmjöls og grasköggla hefur verið sem hér segir: Árið 1999 0,3 tonn, árið 2000 571,6 tonn og árið 2001 226,0 tonn.
    Útflutningur grasmjöls og grasköggla hefur verið sem hér segir: Árið 1999 575,2 tonn, árið 2000 261,3 tonn og árið 2001 68,9 tonn.

     3.      Hver er samkeppnisstaða íslenskrar grasmjölsframleiðslu gagnvart innfluttu grasmjöli og fóðurblöndum sem innihalda grasmjöl og hver er samkeppnisstaða annarrar innlendrar fóðurframleiðslu í samanburði við önnur lönd í Evrópu hvað beina eða óbeina framleiðslustyrki og tollvernd varðar?
    Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um efni þessa liðar fyrirspurnarinnar enda mundi það kalla á úttekt sem ekki verður unnin á fáeinum dögum.
    Hins vegar skal þess getið að árið 1998 skipaði landbúnaðarráðherra, í samráði við forsætisráðherra og fjármálaráðherra, nefnd er hafði það hlutverk að gera úttekt á rekstrarskilyrðum graskögglaverksmiðja. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í febrúarmánuði árið 1999. Í skýrslu nefndarinnar er m.a. fjallað um samkeppnisstöðu íslenskra grasköggla samanborið við danska framleiðslu. Þar segir „Verð á innfluttum graskögglum frá Danmörku er allt að 25 til 40% lægra en verð á íslenskum graskögglum. Munurinn verður þó minni sé tekið tillit til gæða. Verð á vörum sem eru í samkeppni við grasköggla, eins og byggi og maís, er jafnvel enn lægra. Ljóst er að geti innlend framleiðsla ekki keppt á þessu verði eins og flest bendir til er hún þjóðhagslega óhagkvæm, að því gefnu að aðrir þættir, svo sem atvinnuástand, séu með viðunandi hætti.“
    Jafnframt segir í skýrslunni: „Verð á graskögglum í Danmörku án styrkja og álaga er á bilinu 10 til 13 íslenskar krónur eða umtalsvert lægra en á íslenskum graskögglum. Heimsmarkaðsverð á öðrum samkeppnisvörum, eins og byggi og maís, er einnig verulega lægra. Niðurstaðan er því sú að samkeppnisstaða innlendra graskögglaverksmiðja er mun lakari en til dæmis í Danmörku eins og málum er háttað.“
    Í skýrslunni var ekki borin saman samkeppnisstaða annarra innlendrar fóðurframleiðslu í samanburði við önnur lönd í Evrópu hvað beina eða óbeina framleiðslustyrki og tollvernd varðar. Hins vegar voru styrkir til graskögglaframleiðslu athugaðir. Um það atriði segir m.a. í skýrslunni: „Í Evrópusambandinu er veittur styrkur til framleiðslu á þurrkuðu fóðri eins og graskögglum. Til þess að slíkur styrkur fáist greiddur þarf framleiðandinn að uppfylla fjölmörg skilyrði. Framleiðslustyrkurinn er greiddur graskögglaverksmiðjunum fyrir hvert framleitt tonn. Þannig er á framleiðsluárinu 1998/99 greiddar 68,83 evrur á tonn af graskögglum, en það svarar til u.þ.b. 5.382 íslenskra króna á tonnið (5,38 krónur á kg). En framleiðslustyrkur Evrópusambandsins er einnig kvótabundinn. Þannig er aðeins veittur styrkur til 4.412.400 tonna af þurrkuðu fóðri og hefur hvert land innan sambandsins ákveðinn kvóta í tonnum. Þessir skilmálar gilda því fyrir bæði Danmörku og Svíþjóð en ekki Noreg. Þar í landi er enginn stuðningur við graskögglaframleiðslu.“

     4.      Hefur farið fram úrelding á grasmjölsverksmiðjum á sl. þremur árum og sé svo, hvernig hefur hún farið fram?
    Í 7. gr. fjárlaga fyrir árið 1999 er eftirfarandi heimild: „Að semja, að fengnum tillögum nefndar um þjóðhagslega hagkvæmni graskögglaframleiðslu, við framleiðendur um endurskipulagningu graskögglaframleiðslu í landinu, stuðningsaðgerðir við greinina, skuldbreytingu og niðurfellingu lána.“
    Á grundvelli þessarar heimildar ákvað ríkisstjórnin að veita einhverjum verksmiðjum fjárhagslegan stuðning gegn því að þær yrðu úreltar. Þrjár verksmiðjur af fjórum ákváðu að óska eftir úreldingu gegn því að fá fjárhagslegan stuðning til að hætta starfseminni. Það voru verksmiðjurnar í Vallhólma í Skagafirði, Brautarholti á Kjalarnesi og Flatey í Austur-Skaftafellssýslu. Fjórða verksmiðjan, Fóðuriðjan í Ólafsdal í Dalasýslu, ákvað að halda starfseminni áfram. Skilyrði fyrir úreldingunni voru eftirfarandi:
     a.      Að framleiðslu yrði hætt þegar í stað.
     b.      Að styrknum yrði varið til að lækka skuldir verksmiðjunnar. Úthlutun til aðila, sem skulduðu ríkissjóði, ætti sér stað með beinni niðurfellingu skulda þeirra.
     c.      Að undirrituð yrði yfirlýsing um að allri framleiðslu á graskögglum og grasmjöli yrði hætt strax.
     d.      Að þinglýst yrði kvöð á verksmiðjuhús þess efnis að framvegis fari graskögglaframleiðsla ekki fram þar.
     e.      Eigendum verksmiðja var heimilt að nýta viðkomandi fasteignir að vild nema til framleiðslu grasköggla og grasmjöls.
     f.      Eigendum var heimilt að selja þær birgðir af graskögglum sem til voru.

     5.      Hve margar grasmjölsverksmiðjur eru nú starfandi hér á landi, hvar eru þær, hvert er eignarhald þeirra, hve mörg ársstörf eru unnin þar og hver er framtíðarstaða þeirra?
    Ein graskögglaverksmiðja er starfandi en engin framleiðsla fór þó fram í henni á sl. sumri. Hún er hlutafélag og eru um 4,5 ársstörf unnin þar. Staða hennar í framtíðinni verður án efa erfið.