Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 468  —  347. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.
1. gr.

    7. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. A, svohljóðandi:
    Bókhaldsbækur skulu vera til staðar hér á landi. Skal texti þeirra vera á íslensku og fjárhæðir í íslenskum krónum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög, skv. 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, fengið heimild til að færa fjárhæðir í bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja ársreikning í þeim gjaldmiðli, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um ársreikninga. Texti í bókhaldsbókunum skal vera á íslensku, dönsku eða ensku.
    Hjá félögum sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skulu bókhaldsbækur jafnframt vera færðar í íslenskum krónum.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félögum, sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 1. mgr. 11. gr. A laga um ársreikninga, heimilt að varðveita gögn skv. 1. mgr. á starfsstöð erlendis í allt að sex mánuði. Yfirvöld geta þó krafist aðgangs að þeim hér á landi og skal þeim þá skilað innan hæfilegs tíma. Bókhaldsgögn, sem eru á rafrænu formi, skulu ætíð vera aðgengileg yfirvöldum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
             Ef tölvubúnaði, sem nauðsynlegur er til að kalla fram bókhaldsgögn, er breytt eða fargað ber að yfirfæra bókhaldsgögnin á nýjan tölvutækan miðil þannig að áfram verði unnt að kalla þau fram.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.
4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög, sbr. 1. mgr. 1. gr., fengið heimild til að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja og birta ársreikning í þeim gjaldmiðli. Birti félag ársreikning sinn jafnframt í íslenskum krónum skal í skýringum geta um hvaða aðferðum er beitt við samningu ársreikningsins. Texti ársreiknings hjá félagi sem heimild hefur til færslu bókhalds og gerð ársreikninga í erlendri mynt skal vera á íslensku, dönsku eða ensku.

5. gr.


    Á eftir 11. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:

    a.     (11. gr. A)
    Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningu ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Félög sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna skilyrða geta sótt um slíka heimild:
     1.      Félög sem eru með meginstarfsemi sína erlendis eða eru hluti erlendrar félagasamstæðu þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en íslensk króna.
     2.      Félög sem eiga erlend dótturfélög eða hlutdeild í erlendum félögum og meginstarfsemi þeirra er erlendis.
     3.      Félög, sem hafa meginstarfsemi sína hér á landi, en eru með verulegan hluta viðskipta í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum enda teljist hann vera starfrækslugjaldmiðill samkvæmt góðri reikningsskilavenju.
     4.      Félög, sem hafa verulegan hluta fjárfestinga sinna og skulda þeim tengdum skráðan í erlendum gjaldmiðlum, enda fari þau fram úr þeim stærðarmörkum sem tilgreind eru í 1. mgr. 6. gr. laganna.
    Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem meginhluti viðskipta félags eða félagasamstæðu fara fram í. Starfrækslugjaldmiðill skal vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi.
    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu heimildar samkvæmt þessari grein.

    b.     (11. gr. B)
    Umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningu ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skal berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs.
    Félag sem fengið hefur heimild til færslu bókhalds og samningu ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skv. 2. mgr. 11. gr. skal viðhalda þeirri aðferð í að minnsta kosti fimm ár nema það uppfylli ekki lengur skilyrði 11. gr. A.
    Telji félag sig ekki lengur uppfylla skilyrði 11. gr. A ber því að tilkynna ársreikningaskrá um það. Að fenginni heimild ársreikningaskrár skal það færa bókhald sitt og semja ársreikning í íslenskum krónum miðað við næsta reikningsár.
    Ársreikningaskrá skal hafa eftirlit með því að félög sem fengið hafi heimild skv. 1. mgr. uppfylli skilyrði 11. gr. A, sbr. 78. gr. þessara laga.
    Uppfylli félag ekki skilyrði 11. gr. A skal ársreikningaskrá afturkalla heimild til færslu bókhalds og samningu ársreiknings í erlendum gjaldmiðli við upphaf næsta reikningsárs. Ársreikningaskrá getur veitt félagi frest í tvö reikningsár telji hún ástandið tímabundið.

6. gr.


    90. gr. laganna orðast svo:
    Félög sem fengið hafa heimild til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 11. gr., skulu umreikna fjárhæðir efnahagsreiknings fyrra árs á lokagengi ársins og mynda þær fjárhæðir upphafsstærðir í bókhaldi í erlendum gjaldmiðli.

7. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Félög, sem óska eftir að færa bókhald og semja ársreikning vegna reikningsársins 2002 í erlendum gjaldmiðli, hafa frest til 28. febrúar 2002 til að sækja um slíka heimild.

III. KAFLI


Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
nr. 75/1981, með síðari breytingum.

8. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 91. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo:
    Fjárhæðir í skýrslu félags sem heimild hefur til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um ársreikninga, skulu byggðar á bókhaldi í íslenskum krónum, sbr. 3. mgr. 10. gr. A laga um bókhald.

9. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðustu árum hafa tekið gildi ný lög um bókhald og ársreikninga í Danmörku, Noregi og Svíþjóð þar sem veitt er heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Heimildir þessar eru misvíðtækar, en í Danmörku er lagt að jöfnu að færa bókhald í dönskum krónum og evrum. Afla þarf heimildar hjá Erhverv- og Selskabstyrelsen í Danmörku ef semja skal ársreikning í öðrum gjaldmiðli en dönskum krónum eða evrum. Í Svíþjóð hafa tiltekin félög heimild til að færa bókhald í evrum og semja ársreikninga í þeim gjaldmiðli. Þá hafa útibú sænskra félaga á erlendri grund heimild til að semja ársreikninga sína í gjaldmiðli viðkomandi lands. Í Noregi er heimilt að færa bókhald í erlendum gjaldmiðlum en ársreikningur skal saminn í norskum krónum. Samstæðureikning má þó semja í þeim gjaldmiðli sem meginviðskipti félagasamstæðunnar fara fram í.
    Í ljósi vaxandi alþjóðavæðingar hafa þær raddir orðið æ háværari hér á landi sem óskað hafa eftir því að fá að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, enda íslensk fyrirtæki í sívaxandi samkeppni á alþjóðamarkaði.
    Í ljósi framangreindrar þróunar skipaði fjármálaráðherra nefnd haustið 2000 til að endurskoða lög um ársreikninga og lög um bókhald. Eitt af meginverkefnum nefndarinnar var að kanna möguleika á því að heimila færslu bókhalds og samningu ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Nefndin vann áfangaskýrslu um málið þar sem lagt er til að ákveðnum félögum verði veitt slík heimild. Sú tillaga er megininntak þessa frumvarps.
    Ýmis rök hafa verið færð fram fyrir því að veita slíka heimild, en þau helstu eru eftirfarandi:
     *      Fjárhagslegur samanburður við erlenda samkeppnisaðila verður auðveldari.
     *      Sveiflur í afkomu félagsins vegna gengisbreytinga verða minni.
     *      Aðgengi erlendra fjárfesta og lánastofnana að viðurkenndum upplýsingum batnar til muna.
     *      Auðveldara verður fyrir erlendar fyrirtækjasamstæður að stofna og reka dótturfélög á Íslandi.
     *      Auðveldara verður fyrir íslensk móðurfélög að stofna og reka dótturfélög erlendis.
    Við undirbúning frumvarpsins var einnig tekið til sérstakrar skoðunar hvort heimila ætti félögum, sem fengið hefðu heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, skattskil í þeim gjaldmiðli. Ekki var unnt að leita í smiðju nágrannaríkjanna í þessu efni, þar sem ekkert þeirra hefur heimilað skattskil í erlendum gjaldmiðli.
    Í þessari athugun varð fljótlega ljóst að verulegur munur getur orðið á tekjuskattsstofni eftir því hvort hann byggist á reikningsskilum sem gerð eru í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Gengishreyfingar erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni valda því að ýmsar fjárhæðir í rekstrarreikningi, svo sem afskriftir, söluhagnaður eða sölutap eigna geta orðið allt aðrar fjárhæðir í skattframtali sem byggt er á bókhaldi og reikningsskilum í erlendum gjaldmiðli en ef það væri í íslenskum krónum. Skattstofnar verða mismunandi, hvort heldur um er að ræða stofna til tekjuskatts, eignarskatts, virðisaukaskatts, tryggingagjalds eða fleiri skatta og gjalda.
    Þannig gætu tvö íslensk félög í sams konar rekstri með sömu afkomu í íslenskum krónum því skilað gjörólíkum skattstofnum ef annað félagið skilaði skattframtali í erlendum gjaldmiðli en hitt ekki. Mismunurinn getur verið bæði til lækkunar eða hækkunar, allt eftir hvernig gengi krónunnar hefur þróast gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Skattaleg staða félaganna tveggja yrði því innbyrðis ólík og við það skapast ákveðin mismunun milli fyrirtækja sem að öðru leyti búa við sömu skilyrði.
    Af ástæðum þeim sem hér hafa verið raktar er í þessu frumvarpi lagt til að félögum sem eru með skattskylda starfsemi hér á landi verði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, veitt heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, en skattstofnar verði áfram tilteknir í íslenskum krónum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að 7. mgr. 10. gr. falli brott, en að öðru leyti er vísað til athugasemdar við 2. gr.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að komi ný grein, 10. gr. A, og er 1. mgr. samhljóða 7. mgr. 10. gr. núgildandi laga. Í ákvæðinu kemur fram sú meginregla að texti bókhaldsbóka sé á íslensku, fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum og að bækurnar séu varðveittar hér á landi.
    Í 2. mgr. er að finna undantekningu frá meginreglunni í 1. mgr. um að félög geti fengið heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli. Heimildin er takmörkuð við þau félög sem skylt er að semja ársreikninga í samræmi við lög um ársreikninga og nær þannig ekki til atvinnureksturs einstaklinga eða félaga með ótakmarkaða ábyrgð eigenda. Þá er lagt til að texti í bókhaldsbókum megi vera á dönsku eða ensku ef hann er ekki á íslensku.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að félög sem fá heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli færi jafnhliða bókhald í íslenskum krónum, enda krónan grunneining í viðskiptum þeirra með gjaldeyri, við greiðslu launa og kostnaðar hér á landi og í virðisaukaskattsskyldum viðskiptum. Ekki verður séð að á því séu vandkvæði, þar sem flest stærri bókhaldskerfi í notkun hér á landi hafa þann möguleika að færa bókhald í tveimur gjaldmiðlum. Upplýsingaskylda til skattyfirvalda vegna tekjuskatts, eignarskatts, tryggingagjalds, virðisaukaskatts, tryggingagjalds og tekjuskatts o.fl. byggist á fjárhæðum í íslenskum krónum sem nauðsynlegt er að fá út úr bókhaldi félaganna.

Um 3. gr.


    Í a-lið er lagt til að félög sem fengið hafa heimild til að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli megi varðveita bókhaldsbækur og bókhaldsgögn á starfsstöð erlendis í allt að sex mánuði frá þeim mánuði sem þau eru gefin út. Talið er að félög sem hafa meginstarfsemi sína erlendis eða eru dótturfélög erlendra móðurfélaga séu þau félög sem helst muni afla sér þessarar heimildar. Bókhald og bókhaldsgögn á rafrænu formi skulu ætíð vera aðgengileg yfirvöldum innan hæfilegs tíma.
    Í b-lið er lögð til breyting á 2. mgr. 20. gr. laganna um að bókhald sem einu sinni hefur verið fært á tölvutæku formi verði geymt áfram á slíku formi út lögmæltan geymslutíma. Ekki er lengur gert ráð fyrir þeim möguleika að félög geti prentað út gögnin til varðveislu á pappírsformi, enda hafa geymsluskilyrði gagna á tölvutæku formi breyst mikið síðustu ár. Telja má víst að fyrirtæki sem eru með bókhaldsforrit á annað borð uppfæri hjá sér kerfið reglulega eða taki í notkun nýtt og betra kerfi en hverfi ekki frá færslu bókhalds á tölvutæku formi.

Um 4. gr.


    Hér er lögð til undantekning frá meginreglu 1. mgr. og felur hún í sér að félög, sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. laganna, geti fengið heimild ársreikningaskrár til að semja ársreikning og færa bókhald í erlendum gjaldmiðli. Heimildin er takmörkuð við þau félög sem skylt er að semja ársreikninga í samræmi við ákvæði laganna. Þannig er gert ráð fyrir að félög sem fá heimild ársreikningaskrár til færslu bókhalds í erlendum gjaldmiðli skuli einnig semja og birta ársreikninga sína í þeim gjaldmiðli. Texti ársreiknings má vera á dönsku eða ensku ef hann er ekki saminn á íslensku. Félög sem vilja jafnframt birta íslenskum hluthöfum og öðrum aðilum ársreikning saminn í íslenskum krónum skulu geta þess í skýringum hvaða aðferðum er beitt við samningu slíks reiknings.

Um 5. gr.


    Um a-lið (11. gr. A)
    Í greininni er kveðið á um að ársreikningaskrá, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, hafi með höndum það verkefni að veita heimild til færslu bókhalds og samningu ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Talin eru upp skilyrði fyrir veitingu heimildar. Við mat á meginstarfsemi skal litið til þess hvort meginhluti tekna og gjalda félags og skulda og fjárfestingarkostnaðar sé í erlendum gjaldmiðli. Mikilvægt er að félög sem hafa meginstarfsemi sína hérlendis geti sýnt fram á veruleg tengsl félags við tiltekinn gjaldmiðil til að þessi heimild verði veitt. Ef viðskipti félags eru í fleiri en einum erlendum gjaldmiðli en samanlögð viðskipti í erlendum gjaldmiðlum eru umtalsverð þannig að ljóst sé að íslenska krónan teljist ekki vera starfrækslugjaldmiðill getur ársreikningaskrá veitt heimild til færslu bókhalds og samningu ársreiknings í þeim erlenda gjaldmiðli sem vegur þyngst í rekstri félagsins.
    Í 2. mgr. er það skilyrði sett að gjaldmiðillinn sem óskað er eftir til færslu bókhalds verði að vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi. Jafnframt er skilgreint hvað teljist vera starfrækslugjaldmiðill. Við mat á viðskiptum skal litið til viðskiptaumhverfis, tekna, gjalda, eigna og skulda félagsins.
    Í 3. mgr. er að finna heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir veitingu heimildarinnar.

    Um b-lið (11. gr. B)
         Í 1. mgr. er kveðið er á um að umsókn um heimild til að færa bókhald í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum skuli berast eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir upphaf næsta reikningsárs.
    Í 2. mgr. er lagt til að félagi sé skylt að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli í að minnsta kosti fimm ár eftir að heimild er veitt að því gefnu að aðstæður breytist ekki. Tilgangurinn með ákvæðinu er að félög geti ekki nýtt sér heimildina til að færa bókhald milli gjaldmiðla eftir gengisþróun á hverjum tíma.
    Í 3. mgr. er félögum gert skylt að tilkynna ársreikningaskrá um ef þau telja sig ekki lengur uppfylla skilyrði 11. gr. A.
    Í 4. mgr. er kveðið á um eftirlitsskyldu ársreikningaskrár. Mikilvægt er talið að haft sé eftirlit með því að félög uppfylli áfram skilyrði fyrir veitingu heimildar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild ársreikningaskrár til að afturkalla leyfið telji hún að skilyrði séu ekki lengur fyrir hendi. Gert er ráð fyrir því að ársreikningaskrá geti veitt frest í tvö reikningsár ef talið er að ástandið sé tímabundið.

Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um umreikning fjárhæða efnahagsreiknings þegar breytt er um færslugjaldmiðil. Lagt er til að fjárhæðir efnahagsreiknings fyrra árs séu umreiknaðar á lokagengi ársins og mynda þær fjárhæðir upphafsstærðir bókhalds í hinum erlenda gjaldmiðli. Ef horfið er frá samningu ársreiknings í erlendum gjaldmiðli eiga upphafsstærðir að liggja fyrir í íslenskum krónum þar sem bókhald hefur verið fært jafnhliða í íslenskum krónum og er því ekki þörf á umreikningsreglum.

Um 7. gr.


    Þar sem gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2002 er nauðsynlegt að setja bráðabirgðaákvæði vegna rekstrarársins 2002. Gert er ráð fyrir að félög hafi frest til 28. febrúar 2002 til að sækja um heimild skv. 11. gr. A.

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um að þrátt fyrir að ársreikningur sé saminn í erlendum gjaldmiðli skuli greinargerð sú er fylgja skal ársreikningnum til skattyfirvalda vera byggð á bókhaldi í íslenskum krónum, sbr. 10. gr. A laga um bókhald, enda er áfram gert ráð fyrir að skattstofnar verði ákvarðaðir eftir almennum reglum íslenskra skattalaga.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 144/1994,
um ársreikninga, lögum nr. 145/1994, um bókhald,
og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum sem miða að því að heimila fyrirtækjum færslu bókhalds og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Eftir sem áður yrði fyrirtækjunum skylt að færa reikningshald í íslenskum krónum og standa skil á sköttum á þeim grundvelli. Samkvæmt frumvarpinu þyrftu fyrirtæki að sækja um heimild fyrir færslu reikninga í erlendum gjaldmiðli til ársreikningaskrár. Gera má ráð fyrir einhverri vinnu við mat á umsóknum hjá ársreikningaskrá og við eftirlit með því að settum skilyrðum sé fullnægt. Sá kostnaður er þó ekki talinn verða umtalsverður þar sem líkur eru á að fyrirtæki sem taka upp slíkt bókhald verði ekki mörg og áformar fjármálaráðuneytið að verkefninu verði sinnt innan óbreytts útgjaldaramma fjárlaga.