Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 691  —  430. mál.
Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts.

Flm.: Ólafur Björnsson.    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, sem miði að því styrkja framkvæmd innheimtu skattsins og draga úr möguleikum aðila til að skila ekki virðisaukaskatti.
    Nefndin verði skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af ráðherra, einum af ríkisskattstjóra og einum frá Samtökum atvinnulífsins.

Greinargerð.


    Ljóst er að verulegar fjárhæðir skila sér ekki í ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts, og tapast miklir fjármunir á hverju ári við gjaldþrot rekstraraðila. Jafnframt þessu liggur fyrir að árlega er fjöldi einstaklinga kærður fyrir fjárdrátt þar sem þeir eða fyrirtæki þeirra standa ekki skil á virðisaukaskatti.
    Lög um virðisaukaskatt gera ráð fyrir að rekstaraðili haldi innheimtum virðisaukaskatti ekki aðgreindum frá fjármunum sínum og virðist beinlínis ætlast til þess að fé þetta sé notað sem rekstrarfé á meðan það er í vörslu innheimtuaðilans. Þetta leiðir gjarnan til þess að þegar kemur að skuldadögum, sem nú eru á tveggja mánaða fresti að meginstefnu til, er ekki til fyrir virðisaukaskattinum. Verði innheimtuaðilinn gjaldþrota er algengt að forsvarsmenn hans séu ákærðir og dæmdir fyrir fjárdrátt, þ.e. fyrir að draga sér virðisaukaskattinn. Þessi tilhögun, að ríkisvaldið skuli hafa refsivernd fyrir kröfum sínum, hafa margir gagnrýnt og talið að um mismunun sé að ræða milli kröfuhafanna þannig að ríkissjóður standi í raun framar öðrum almennum kröfuhöfum þrátt fyrir að krafan eigi samkvæmt gjaldþrotalögum að falla í flokk almennra krafna og að það sé eitt af grundvallarmarkmiðum gjaldþrotaskiptalaga að tryggja jafnræði þeirra.
    Eðilegra virðist vera að stíga skrefið til fulls og telja að innheimtur virðisaukaskattur sé frá upphafi eign ríkisins sem þegar í stað skuli halda aðgreindum frá fé innheimtuaðilans og að misbrestur á þessu varði hann refsingu. Við gjaldþrotaskipti standi þessi vörslureikningur óháður skiptunum. Krafan yrði þannig aldrei ein af almennum kröfum í búið heldur stæði utan skuldaraðar við gjaldþrotaskipti.
    Erfitt kann að reynast að finna leið til þess að þetta geti gengið upp og skil skattsins verði einföld. Þó mætti hugsa sér að fénu yrði skilað til ríkisins strax, ef koma mætti því við, eða að vörslureikningur yrði gerður upp mánaðarlega og skal þá heimilt að draga innskatt frá.
    Jafnframt má hugsa sér, ef það yrði til hvatningar og öruggari skattskila, að allir sem innheimta virðisaukaskatt fengju einhvers konar þóknun frá ríkinu fyrir skattskil.
    Verkefni nefndarinnar yrði að kanna möguleika og leiðir í þessu efni. Frá því að núgildandi lög um virðisaukaskatt voru sett hafa greiðslumiðlar og rafrænar fjármagnstilfærslur þróast verulega og því tímabært að endurskoða lögin með fyrrgreind markmið í huga.