Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 710  —  443. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um notkun svifnökkva til fólks- og vöruflutninga milli lands og Vestmannaeyja.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason,


Kjartan Ólafsson, Ólafur Björnsson.


    Alþingi ályktar að samgönguráðherra láti kanna til hlítar kosti þess að nota svifnökkva til fólks- og vöruflutninga milli Vestmannaeyja og Landeyjasands. Niðurstöður könnunarinnar liggi fyrir eigi síðar en 1. nóvember 2002.

Greinargerð.


    Vestmannaeyingar hafa nokkra sérstöðu í samgöngumálum á Íslandi. Einungis Grímseyingar búa við sambærilegar aðstæður. Góðar samgöngur eru undirstaða búsetu í nútímasamfélagi. Um nokkurt skeið hefur fólki fækkað í Vestmannaeyjum. Ein ástæða þess eru hugsanlega ónógar samgöngur milli lands og Eyja sem íbúar sætta sig ekki við. Um tíma var flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja í mikilli óvissu, þau mál hafa nú leyst. Þannig hefur Flugfélag Íslands hætt flugi til Eyja eftir áratuga þjónustu við Vestmannaeyinga, en Íslandsflug tekið við. Lítið má vera að veðri til þess að flugi sé aflýst á þessari leið. Flugfélag Vestmannaeyja heldur uppi góðri þjónustu með flugferðum milli Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar í Landeyjum og Selfoss. Margir Vestmannaeyingar telja að ferðir Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar séu ekki nægilega tíðar og að í hraða nútímasamfélags sé þriggja klukkustunda ferð milli þessara staða of langur tími.
    Göng milli lands og Eyja eru enn fjarlægur draumur enda þótt framþróun í gangagerð sé hröð hér á Íslandi sem og annars staðar í veröldinni.
    Með tilkomu ganga undir Ermarsund bjóðast nú nokkrir notaðir svifnökkvar til sölu á tiltölulega sanngjörnu verði. Flutningsmenn tillögunnar telja einboðið að kannað sé til fullnustu hvort svifnökkvar henti til flutninga milli Vestmannaeyja og Landeyjasands, en notkun slíkra farartækja gæti gerbreytt samgöngum milli lands og Eyja. Ferðatími mundi styttast til mikilla muna og staða Vestmannaeyja sem samfélags gerbreytast. Talið er að sigling frá Vestmannaeyjum upp í Landeyjafjöru tæki u.þ.b. 10 mínútur. Náttúrufegurð Vestmannaeyja er mikil og að sumu leyti einstæð. Notkun svifnökkva sem samgöngutækis mundi styrkja atvinnulíf í Eyjum, ekki síst ferðaþjónustu sem er vaxandi atvinnugrein þar eins og annars staðar. Að vorlagi hópast ungt fólk til Vestmannaeyja í skólaferðalögum, íþróttaferðalögum o.fl. Þúsundir manna sækja íþróttaviðburði eins og peyja- og pæjumót sem þar eru haldin ár hvert. Þúsundir manna flykkjast til Vestmannaeyja á þjóðhátíð sem haldin er árlega síðsumars. En oft er ferðum með flugi aflýst sökum veðurs, mörgum til mikillar raunar.
    Vert er að skoða til fullnustu þennan samgöngumáta til þess að styrkja búsetu í Vestmannaeyjum. Auknar samgöngur milli Vestmannaeyja og Rangárvallasýslu yrðu einnig atvinnuskapandi og mundu styrkja samvinnu þessara svæða í atvinnumálum, t.d. í ferðaþjónustu. Þessi tilraun yrði kærkomin viðbót við straumrannsóknir og rannsóknir á hugsanlegu hafnarstæði á Bakkafjöru.