Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 810  —  474. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Engin fjarvinnsluverkefni voru flutt út á land árið 2001 á vegum ráðuneytisins eða stofnana og fyrirtækja þess. Hins vegar voru nokkur störf flutt frá Reykjavík og ákveðið að ráða í ný störf á landsbyggðinni.
    Sveitarfélög og sýslumannsembætti eru sjálfstæð stjórnvöld sem skrá í Landskrá fasteigna. Í ársbyrjun 2001 gengu í gildi lög er marka stofnun Landskrár fasteigna og hófst þá uppbygging þjónustu vegna skrárinnar á Akureyri. Ráðið var í þrjú ný störf á skrifstofu stofnunarinnar þar til þess að annast upplýsingaþjónustu og landsupplýsingakerfi, auk þess að í kjölfar útboðs var undirritaður samningur við ANZA hf. um að hýsa gagnagrunnsþjón og um tengda þjónustu á Akureyri. Má ætla að sú starfsemi krefjist 2–3 starfa og skapi auk þess möguleika fyrir fyrirtækið til að hasla sér völl í eðlislíkum verkefnum.
    Í 15. gr. reglugerðar nr. 505/1998, um áfengisgjald, er kveðið á um að embætti ríkisskattstjóra skuli hafa eftirlit með starfsemi framleiðenda áfengis hér á landi. Eftirlitið tekur m.a. til framleiðslutækja og búnaðar, átöppunar áfengis, geymslu þess, töku rannsóknarsýna og förgunar skemmdrar vöru. Í ársbyrjun 2001 var ákveðið að fela skattstofunni á Norðurlandi eystra að annast eftirlit með áfengisframleiðslu í umdæminu. Um er að ræða eitt stöðugildi.