Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 860  —  478. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Eftirtaldar stofnanir ráðuneytisins fluttu störf út á land á árinu 2001:
     Veðurstofa Íslands: Starf sviðsstjóra á jarðeðlissviði var flutt til Eyjafjarðar.
    Náttúrufræðistofnun Íslands: Starf grasafræðings var flutt til seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri. Einnig var hlutastarf ( 1/ 12) fært á Akureyrarsetrið en starfið felst í umsjón með rannsóknum á hveraörverum (sbr. lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu).
    Fjarvinnsluverkefni voru ekki unnin fyrir ráðuneytið og stofnanir þess á árinu 2001.
    Árið 2001 var stofnað embætti þjóðgarðsvarðar í þjóðgarðinum Snæfellsjökli og býr nýráðinn þjóðgarðsvörður í Snæfellsbæ.
    Ráðuneytið vill jafnframt minna á að fjórar stofnanir ráðuneytisins eru staðsettar á landsbyggðinni. Það eru Landmælingar Íslands, Rannsóknarstöðin við Mývatn, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Veiðistjóraembættið. Auk þess er Náttúrufræðistofnun Íslands með setur á Akureyri. Starfsmannafjöldi í þessum stofnunum var um síðustu áramót 55. Þá starfa og fjórir fastráðnir starfsmenn Náttúruverndar ríkisins í fullu starfi við landvörslu og 13 starfsmenn Veðurstofu Íslands starfa í fullu starfi á landsbyggðinni. Þannig eru starfandi alls 72 fastráðnir starfsmenn á vegum ráðuneytisins og stofnana þess úti á landi. Starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess eru alls um 317, þar af 72 á landsbyggðinni eða tæp 23%.
    Auk þess starfar fjöldi starfsmanna við veðurathuganir, snjóaeftirlit og landvörslu á vegum Veðurstofu Íslands og Náttúruverndar ríkisins. Á árinu 2001 störfuðu 156 manns utan höfuðborgarsvæðisins við veðurathuganir og snjóaeftirlit og 43 landverðir störfuðu í hlutastörfum á vegum Náttúruverndar ríkisins á landsbyggðinni.