Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1169  —  445. mál.
Svarsjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um kostnað við stjórn fiskveiða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er heildarkostnaður við eftirlit með fiskveiðistjórnarkerfinu á ársgrundvelli?
     2.      Hvernig skiptist kostnaðurinn eftir útgerðarflokkum, sundurliðað eftir skilgreiningu veiðileyfa?
     3.      Hversu mörg ársverk eru við eftirlit með fiskveiðiflotanum?
    Óskað er yfirlits yfir árin 1999–2001.


    1. Heildarkostnaður Fiskistofu vegna veiðieftirlits hefur verið metinn árlega vegna útreiknings á veiðieftirlitsgjaldi. Sá kostnaður við starf Fiskistofu sem eingöngu snýst um eftirlit með fiskveiðum hefur verið lagður þar til grundvallar að fullu og að hluta kostnaður við þá þætti í rekstri Fiskistofu sem snerta eftirlitið með óbeinum hætti, t.d. rekstur tölvudeildar, yfirstjórn og húsnæðiskostnaður. Kostnaður við veiðieftirlit á árunum 1999–2001 samkvæmt þessu kemur fram í töflunni.

Kostnaður við eftirlit.


Ár

Millj. kr.

1999
207,4
2000 232,1
2001 312,1

    Kostnaður jókst mjög milli áranna 2000 og 2001 en það skýrist af ráðningu tíu nýrra eftirlitsmanna, fimm í september 1999 og fimm í janúar 2000. Þess skal enn fremur getið að eigendur fiskiskipa greiða kostnað Fiskistofu af veiðieftirliti með veiðieftirlitsgjaldi.
    2. Núna er ekki hægt að skipta raunkostnaði við eftirlit með veiðum eftir skilgreiningum veiðileyfa. Helstu skýringar þess eru að oft eru eftirlitsmenn Fiskistofu á ferð um hafnir landsins og fylgjast í einni og sömu eftirlitsferðinni með skipum með mismunandi veiðileyfi. Ekki er skráð hversu mikill tími eftirlitsmanna fer í að skoða eða fylgjast með hverju einstöku skipi og væri raunar nær ógerlegt. Enn fremur getur sama skip haft mörg mismunandi veiðileyfi og þyrftu eftirlitsmenn þá að meta hvaða leyfi skipið er að nota á hverjum tíma. Fiskistofa vinnur nú að því að leita leiða til að skipta kostnaði við eftirlit stofnunarinnar niður eftir útgerðarflokkum og munu tillögur liggja fyrir í haust.
    3. Við mat á því hversu mörg ársverk eru unnin við eftirlit með fiskveiðiflotanum var beitt sömu aðferðafræði og við skiptingu kostnaðar (sbr. 1. lið). Í töflunni er gefinn upp fjöldi ársverka við beint eftirlit, við óbeint eftirlit, þ.e. þar sem hluti starfs er við eftirlit eða eftirliti er sinnt óbeint (t.d. hlutdeild í yfirstjórn), og loks samtala ársverka.

Fjöldi ársverka við eftirlit.


Ár Beint eftirlit Óbeint eftirlit Eftirlit alls
1999 33,7 10,9 44,6
2000 36,0 11,6 47,6
2001 45,6 12,8 58,4