Ferill 715. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1178  —  715. mál.
Frumvarp til lagaum breyt. á l. um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar (ÞKG, JBjart, KÓ, KF, ÁMöl).    1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „hegðun og framfærslu“ í 1. mgr. kemur: hegðun, framfærslu og íslenskukunnáttu.
     b.      Við B-lið 1. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Umsækjandi hafi nægilega þekkingu á íslensku máli til þess að halda uppi almennum samræðum á málinu. Þetta skilyrði gildir þó ekki um þá sem eru orðnir 65 ára og hafa búið á Íslandi í a.m.k. 15 ár eða eiga óhægt um mál sakir fötlunar eða sjúkdóms eða annarra sambærilegra ástæðna. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um prófun á íslenskukunnáttu umsækjenda og vottun um þá kunnáttu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Greinargerð.


    Íslenskukunnátta útlendinga hefur verið til umræðu upp á síðkastið í tengslum við veitingu dvalarleyfis og veitingu ríkisborgararéttar og þá sérstaklega vegna lagafrumvarps dómsmálaráðherra um útlendinga. Þar er lagt til að veita megi útlendingi búsetuleyfi ef hann hefur m.a. sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Allsherjarnefnd hefur haft frumvarpið til umfjöllunar (433. mál, þskj. 698) og telur hún að slík kunnátta hljóti að vera forsenda þess að útlendingar geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Nefndin telur eðlilegt og ekki síður mikilvægt að þeir sem veittur er íslenskur ríkisborgararéttur geti sýnt fram á kunnáttu í íslensku máli og leggur því til breytingu þess efnis á lögum um íslenskan ríkisborgararétt.