Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1371  —  38. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem var einnig flutt á 125. og 126. löggjafarþingi, en þá bárust umsagnir frá Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi – SUNN, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Bindindissamtökunum IOGT, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum herstöðvaandstæðinga, Neytendasamtökunum, Orkustofnun, Samtökum útivistarfélaga – SAMÚT, Bændasamtökum Íslands, Landvernd, Samtökum um betri byggð, Skipulagsstofnun og Samtökum ferðaþjónustunnar. Á 127. löggjafarþingi bárust upplýsingar frá umhverfisráðuneyti.
    Með þingsályktuninni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og hvernig samskiptum stjórnvalda og sveitarstjórna við þau er háttað. Jafnframt er lagt til að nefndin skili tillögum til ríkisstjórnarinnar um hvernig samráði stjórnvalda við frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála verði hagað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt svokölluðum Árósasamningi.
    Nefndin telur eðlilegra að úttekt þessi takmarkist við frjáls félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála og leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tillögugrein orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála á Íslandi. Jafnframt skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar um það hvernig samskiptum stjórnvalda við slík samtök verði best háttað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi sem undirritaður var í Árósum 23.–25. júní 1998.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir, Gunnar Birgisson og Ásta Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. apríl 2002.Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Katrín Fjeldsted.Kolbrún Halldórsdóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Jóhann Ársælsson.