Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1374  —  44. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndinni bárust umsagnir frá Landlæknisembættinu, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, St. Jósefsspítala, Læknafélagi Íslands, Félagi sérfræðinga í meltingarsjúkdómum, Krabbameinsfélagi Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Háskóla Íslands – læknadeild, heimilislæknisfræði.
    Nefndin tekur undir efnisatriði tillögunnar og þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með henni.
    Nefndin telur þó nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á tillögugreininni. Annars vegar bendir nefndin á að ráðherra verði ekki skyldaður með ályktun Alþingis einni saman til að hrinda umræddu forvarna- og leitarstarfi í framkvæmd. Í ályktun Aþingis felst hins vegar yfirlýsing sem eðlilegt er að handhafar framkvæmdarvaldsins taki tillit til. Leggur nefndin til breytingar á tillögutextanum í samræmi við þetta. Hins vegar leggur nefndin til að efni tillögugreinarinnar verði afmarkað með skýrari hætti þannig að sjónum manna verði fyrst og fremst beint að forvarna- og leitarstarfi hjá þeim sem teljast vera í áhættuhópi.
    Nefndin bendir á að mikið starf hefur þegar verið unnið á þessu sviði og gerir nefndin ráð fyrir að á því verði byggt við þá tillögusmíð og undirbúning sem lagt er til að ráðist verði í.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttu við aðrar algengustu tegundir krabbameins hér á landi.

    Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ásta Möller, Ólafur Örn Haraldsson og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2002.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Einar Oddur Kristjánsson.Margrét Frímannsdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.