Ferill 661. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1403  —  661. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um textun íslensks sjónvarpsefnis.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur verið gert til að framfylgja þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 2001 um textun íslensks sjónvarpsefnis þar sem ráðherra var falið að stuðla að því að íslenskt sjónvarpsefni yrði textað eftir föngum til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk?

    Þingsályktuninni var komið á framfæri við Ríkisútvarpið, Íslenska útvarpsfélagið og Íslenska sjónvarpsfélagið með bréfum, dags. 31. ágúst og 10. september 2001. Í bréfunum var jafnframt óskað upplýsinga um hvernig þessum málum væri háttað hjá stöðvunum. Ráðuneytið ítrekaði þessi bréf með bréfi 10. janúar á þessu ári, þar sem engin svör höfðu borist, og óskaði eftir því að í upplýsingunum kæmu einnig fram kostnaðartölur vegna textunar á íslensku sjónvarpsefni sem og upplýsingar um hlutfall textaðs efnis eftir flokkum. Svör bárust frá Ríkisútvarpinu og Íslenska útvarpsfélaginu.
    Í svari Ríkisútvarpsins kemur m.a. fram að á árinu 2001 voru frumsýndar um 695 mínútur af innlendu efni sem textað var á síðu 888 í textavarpinu og skiptist umrætt efni þannig að leikið íslenskt efni er um 68%, ávörp um 11% og fréttaágrip og trúmál um 21%. Kostnaður við textun eru tæpar 20.000 kr. á klst. Árið 2001 var kostnaður við textun á síðu 888 í textavarpinu og táknmálsfrétta tæpar 2,8 millj. kr., sem skiptist þannig að rúmar 365 þús. kr. fóru til textunar á síðu 888 og tæpar 2,4 millj. kr. fóru til textunar táknmálsfrétta. Síðan táknmálsfréttir hófu göngu sína hefur tækninni fleygt mikið fram og er nú hægt að nálgast fréttir Ríkisútvarpsins í textavarpinu, á vef Ríkisútvarpsins og með SMS- og WAP-skilaboðum. Fréttaþjónusta Ríkisútvarpsins hefur því breyst á undanförnum árum til góðs fyrir þá sem nota þessa þjónustu.
    Í svari Ríkisútvarpsins kemur jafnframt fram að gert sé ráð fyrir auknum kostnaði við textun í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. En ef texta ætti stærsta hluta innlends efnis mætti gera ráð fyrir að árlegur kostnaður Sjónvarpsins mundi hækka um a.m.k. 30 millj. kr. og væri þá stofnkostnaður og fjárbindingar í nauðsynlegum búnaði undanskilinn.
    Í svari Íslenska útvarpsfélagsins kemur fram að íslenskt sjónvarpsefni á sjónvarpsstöðvum fyrirtækisins er ekki textað. Til þess skortir félagið viðbótarbúnað sem gera mætti ráð fyrir að kostaði um 1 millj. kr. Meginkostnaðurinn fælist þó einkum í auknu mannahaldi og vinnuaðstöðu.
    Þá má geta þess að í janúar á þessu ári átti fyrrverandi menntamálaráðherra fund með forsvarsmönnum Félags heyrnarhjálpar um textun á íslensku sjónvarpsefni. Í kjölfar þess fundar kostaði ráðuneytið ferð fulltrúa síns á norrænan fund í Gautaborg í janúar sl. um textun sjónvarpsefnis ásamt fulltrúum Félags heyrnarhjálpar. Meginefni þess fundar fólst m.a. í umræðum um stöðu þessara mála á Norðurlöndunum. Fjallað var um þá tækni sem nauðsynleg er við textun sjónvarpsefnis, um þá möguleika og þær hindranir sem eru á þessu sviði og um möguleikann á mótun sameiginlegrar norrænnar stefnu til að koma þessum málum í betri farveg. Á fundinum var m.a. ákveðið að halda tvo norræna fundi á næstu mánuðum, annars vegar með framkvæmdastjórum félaga heyrnarskertra og hins vegar með stjórnarmönnum félaganna.