Þingmennskuafsal Vilhjálms Egilssonar

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:33:42 (2812)

2003-01-21 13:33:42# 128. lþ. 61.92 fundur 351#B þingmennskuafsal Vilhjálms Egilssonar#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Forseti (Halldór Blöndal):

Borist hefur svohljóðandi bréf:

,,Reykjavík, 8. janúar 2003.

Virðulegi forseti. Afráðið hefur verið að ég taki við störfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC hinn 16. janúar nk. Segi ég því af mér þingmennsku frá þeim degi.

Ég þakka þér, virðulegi forseti, samstarfið á liðnum árum sem og alþingismönnum og starfsfólki þingsins. Ég óska ykkur öllum farsældar í störfum ykkar í framtíðinni.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Egilsson.``

Samkvæmt þessu bréfi verður Adolf H. Berndsen 4. þm. Norðurl. v., en Sigríður Ingvarsdóttir 1. þm. Norðurl. v.

Adolf H. Berndsen hefur áður tekið sæti á Alþingi og undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni. Ég býð hann velkominn til starfa.

Við brotthvarf Vilhjálms Egilssonar af þingi vil ég færa honum þakkir fyrir þau störf sem hann hefur unnið á Alþingi, sérstaklega setu hans í efh.- og viðskn. frá árinu 1991 og formennsku í nefndinni 1992--1993 og samfellt frá 1995. Ég veit ég mæli fyrir munn þingmanna þegar ég þakka honum ánægjuleg kynni og gott samstarf sem skilur eftir góðar minningar. Við njótum starfskrafta hans, reynslu og þekkingar í öðru mikilvægu starfi. Ég óska honum allra heilla á þeim vettvangi.