Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:48:49 (2818)

2003-01-21 13:48:49# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ruðningsáhrifa vegna væntanlegra framkvæmda eystra er þegar farið að gæta. En hvar eru mótvægisaðgerðirnar?

Hæstv. forsrh. spyr í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu: Hvað hefði gerst ef við hefðum ekki að undanförnu búið við okkar eigin mynt? En ég spyr á móti: Hvar eru kostirnir við að búa við okkar eigin mynt? Ég auglýsi eftir þeim stjórntækjum til áhrifa í efnahagslífinu sem hæstv. forsrh. þykja svo mikilvæg að hvorki má ræða ESB né upptöku evrunnar.

Í grunndæmi fjmrn. frá 8. þessa mánaðar er gengi krónunnar mikilvæg forsenda og miðað við meðaltal ársins 2002. Við mat á stofnkostnaði er miðað við dollarann á 85 kr. En hann hefur nú fyrir nokkru hreiðrað um sig mun neðar, hefur undanfarið verið undir 80 kr.

Atvinnuleysi fer vaxandi, herra forseti. Þróun gengisins hefur þegar sett alvarlegt strik í reikninga útflutnings- og samkeppnisfyrirtækjanna og ef þessi staða verður óbreytt mun hún enn auka á uppsagnir og atvinnuleysi, fjölda fyrirtækja verður lokað því að þau ráða ekki við þá gengisþróun sem fyrirhugaðar framkvæmdir hafa þegar kallað fram.

Í svari við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta vori, um mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa Noral-verkefnisins, kemur fram að búast megi við þessum áhrifum á gengi krónunnar í aðdraganda og á fyrstu stigum framkvæmdanna. Jafnframt segir að þessar gengissveiflur hefðu veruleg áhrif á raungengi og samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina.

Herra forseti. Hvar eru stjórntækin ómissandi? Hversu langt á að ganga áður en þau verða sýnd?