Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:57:06 (2822)

2003-01-21 13:57:06# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er sannarlega undarlegur málflutningur, að þegar efnahagsumsvifin í landinu vaxi þá kalli það böl yfir þjóðina. Þannig hafa hv. þm. Vinstri grænna talað í dag. Það sé sérstaklega slæmt að vita til að auka eigi efnahagsumsvifin og að fjárfestingin í landinu, sem hefur verið að dragast saman, eigi að aukast. Við sjáum fram á að landsframleiðslan muni aukast til lengri tíma og hagvöxtur aukast, lífskjörin muni batna. Það telst sérstakt böl, sérstakt vandamál sem hefur verið útmálað með þessum hætti.

Þetta er undarlegur málflutningur. Auðvitað rekur sig þarna hvað á annars horn. Vitaskuld er ánægjulegt að efnahagsumsvifin í landinu eru að aukast, ekki síst vegna þess að það hefur dregið úr vexti atvinnulífsins upp á síðkastið. Við sjáum þarna mikla möguleika.

Það er auðvitað rétt, það vita allir, að haga þarf hagstjórninni með öðrum hætti þegar vöxtur er í atvinnu- og efnahagslífi en þegar samdráttur er. Auðvitað verða menn að bregðast við með einhverjum þeim hætti. En að draga upp þá mynd að hér fari allt á hliðina og það verði ekki hægt að leggja vegi, byggja skóla eða sjúkrahús o.s.frv., eins og hv. málshefjandi talaði um áðan, er auðvitað alveg út í loftið.

Fjmrn. vakti athygli á að mótvægisaðgerðirnar gætu hugsanlega falist í að draga saman opinberar framkvæmdir um 10%. Rímar það saman við lýsingu hv. þm. áðan sem sagði að hér yrði ekki hægt að leggja vegi eða byggja skóla? Hann gaf í skyn að hér yrði ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut vegna Kárahnjúkavirkjunar og álverksmiðju á Austfjörðum.

Vitaskuld sér það hver einasti maður, virðulegi forseti, að svona málflutningur er gjörsamlega út í loftið. Það tekur því varla að ræða hann. (ÖJ: Enda viljið þið ekkert ræða þetta.)