Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:59:13 (2823)

2003-01-21 13:59:13# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að ræða um mótvægisaðgerðir, nú þegar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar vegna orkuframleiðslu til stóriðju á Austurlandi liggja fyrir.

Mótvægisaðgerðir í aðdraganda stórframkvæmda þurfa í aðalatriðum að vera tvenns konar. Í fyrsta lagi vegna almennra áhrifa í hagkerfinu öllu til að jafna út spennu sem þessi gríðarlega framkvæmd skapar. Þar hljóta vaxtalækkanir að koma helst til greina eins og ástandið er í þjóðfélaginu. Rökin fyrir vaxtalækkunum eru augljós. Hér eru sligandi háir vextir og þó er minnkandi eftirspurn, vaxandi atvinnuleysi og almennur samdráttur í hagkerfinu greinilegur. Nú er því gott umhverfi til að lækka vexti, tækifæri til að færa vaxtastigið verulega í átt til þess sem gerist í samkeppnislöndum okkar.

Nú reynir á það hvort stjórntækið, sem hæstv. forsrh. telur svo mikils virði að geta beitt þegar á þarf að halda, virkar í raun og veru.

[14:00]

Í öðru lagi minni ég á tillögur okkar samfylkingarmanna um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum, ójafnvægi sem mun augljóslega skapast vegna þeirra gífurlegu framkvæmda sem í stefnir á norðausturhluta landsins. Það hefur nefnilega verið ákveðið að fara í einhverjar mestu framkvæmdir í vegamálum sem um getur líka á þessu landsvæði. Ný byggðaáætlun hefur verið ákveðin sem beinir athyglinni fyrst og fremst inn á þetta svæði og til Akureyrar. Svo hefur hæstv. byggðamálaráðherra verið iðin við að flytja alls kyns verkefni norður til Akureyrar og á það svæði, og það meira að segja frá svæðum sem eiga undir högg að sækja. Þess vegna er ástæða til að horfa til þess að koma af stað framkvæmdum á öðrum hlutum landsins, öðrum byggðasvæðum, og manni verður á að spyrja: Hvar voru þingmenn og ráðherrar þessara svæða þegar þessar ákvarðanir voru teknar?