Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:37:54 (2831)

2003-01-21 14:37:54# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:37]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Gestir okkar ágætu nefndar voru ekki svona hræddir við miðstýringuna og m.a. orðaði forstjóri Iðntæknistofnunar þetta þannig að hann væri alls ekki hræddur við pólitíkusana í þessum málum.

Ég vil einnig geta þess að í umsögn Félags háskólakennara og Félags prófessora sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gat um áðan segir m.a., ef hv. þm. hefði flett á næstu blaðsíðu, með leyfi forseta:

,,Félögin telja eðlilegt að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra eigi sæti í ráðinu ...`` Þeim finnst fullkomlega eðlilegt að stjórnmálamenn eigi sæti í þessu ráði og það verði hafið upp á, eins og menn hafa verið að tala um, æðra stjórnsýslustig.

Ég vil einnig geta þess að Raunvísindastofnun Háskóla Íslands segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stjórn RH fagnar þessum frumvörpum og telur að með samþykkt þeirra séu líkur á að vísindarannsóknum og tækniþróun á Íslandi verði komið í farveg sem leiði til bætts árangurs miðað við það sem nú er.``

Það er í rauninni það sem við erum að stuðla að. Við erum að stuðla að enn frekari þróun þannig að við getum eflt okkur og bætt í vísinda- og rannsóknasamfélaginu.

Ég vil einnig spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvort hann sé ósammála formanni Samfylkingarfélagsins á Seltjarnarnesi sem segir í Morgunblaðsgrein frá 18. desember 2002 m.a., með leyfi forseta:

,,Samþykkt frumvarpanna þriggja mun leggja grunn að heildstæðu stuðningskerfi fyrir rannsóknir, þróun og nýsköpun á Íslandi og treysta þar með grunnstoðir nútímasamfélags.``