Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:45:32 (2835)

2003-01-21 14:45:32# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. meiri hluta GunnB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir frá meiri hluta menntmn. Rétt er, virðulegi forseti, að lesa upp 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.``

Farið var í smiðju til vina okkar Finna við smíði og gerð þeirra þriggja frv. sem hér eru til umræðu, og mikil bylting sem verður í vísindum og rannsóknum eftir að þau verða að lögum.

Fjallað var um málið í samstarfi við allshn. og iðnn. þingsins. Mál þetta var lagt fram á 127. þingi, á síðasta ári, en varð þá ekki útrætt. Frumvarpið var sent til umsagnar víða og rétt að fara yfir hvaðan umsagnirnar bárust. Þær bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, dr. Skúla Sigurðssyni, Félagi háskólakennara, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík, Hjartavernd, Iðntæknistofnun, Kennaraháskóla Íslands, læknaráði Landspítala -- háskólasjúkrahúss, Náttúrufræðistofnun Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Orkustofnun, Rannsóknarráði Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun. Öllum aðilum sem eiginlega geta tengst þessum frv. voru send þau til umsagnar og bárust umsagnir frá þeim. Á þessu þingi voru frv. lögð fram að nýju að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram komu við meðferð þeirra á síðasta þingi. Ýmsar athugasemdir komu fram frá umsagnaraðilum og var tekið tillit til þeirra. Ég held að það hafi bætt þessi frv., öll þrjú.

Á yfirstandandi þingi fékk menntmn. á sinn fund, sameiginlegan fund allshn., menntmn. og iðnn., Pál Skúlason og Jón Atla Benediktsson frá Háskóla Íslands, Hallgrím Jónasson frá Iðntæknistofnun, Þorstein Tómasson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Úlfar Steindórsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Hafliða P. Gíslason og Kristján Kristjánsson frá Rannsóknarráði Íslands, Davíð Lúðvíksson frá Samtökum iðnaðarins, Hólmar Svansson og Róbert Jónsson fyrir hönd atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni. Þá bárust nefndunum á ný umsagnir um frv. frá Bandalagi háskólamanna, Rannsóknarráði Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun, Háskólanum í Reykjavík, læknaráði Landspítala -- háskólasjúkrahúss, Seðlabanka Íslands, Félagi háskólakennara, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði, Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og dr. Skúla Sigurðssyni.

Þessi mál hafa sem sagt farið víða og verið mikið rædd. Margar athugasemdir hafa komið og tekið hefur verið tillit til þeirra. Þetta mál hefur verið afar vel unnið og ég vil taka undir þau orð hv. formanns allshn. að benda á þá aðila sem þarna komu að máli sem voru á móti frv. í upphafi.

Lögbundin endurskoðun laga um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994, leiddi til þess að lögð hafa verið fram framangreind frumvörp sem taka til vísindarannsókna og tækniþróunar á Íslandi. Með frumvarpi þessu er fjallað um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og er það háð því að frumvarp forsætisráðherra um Vísinda- og tækniráð verði að lögum. Helstu nýmæli frumvarpsins eru samkvæmt greinargerð þau að lagt er til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs samkvæmt núgildandi lögum um Rannsóknarráð Íslands. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur við hlutverki því sem úthlutunarnefndir höfðu áður. Þá er lagt til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum og fer stjórn Rannsóknasjóðs einnig með stjórn hans. Hins vegar er lagt til að Rannsóknarnámssjóður starfi áfram undir sérstakri stjórn. Þá er gert ráð fyrir að grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir heyri áfram undir menntamálaráðuneytið. Rannsóknasjóður mun gegna lykilhlutverki við styrkveitingu til rannsókna og áhersla verður lögð á að rannsóknir séu styrktar eftir gæðum sem metin verða samkvæmt faglegum kröfum á viðkomandi sviði. Lagt er til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs. Jafnframt er gert ráð fyrir því nýmæli að sömu aðilar sitji í stjórn Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs og úthluti styrkjum svo sem fyrir er mælt.

Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og telur að með því hafi tekist að draga skýr mörk á milli stefnumótunar stjórnvalda á sviði vísinda og tækni annars vegar og úthlutunar styrkja og þjónustu við rannsóknaraðila hins vegar auk þess sem náðst hefur fram einföldun á þessu sviði öllu. Þá hefur komið fram nauðsyn þess að breyta 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og tryggja umboð Rannsóknarráðs til úthlutunar fyrir árið 2003.

Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingu við 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sem hljóðar þá svo, með leyfi forseta:

,,Rannsóknarráð Íslands samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal annast úthlutun styrkja úr sjóðum í vörslu ráðsins á árinu 2003 og jafnframt vinna að undirbúningi tillagna um úthlutunarreglur skv. 8. gr. laga þessara um styrkveitingar á árinu 2004, þó eigi lengur en til 30. mars 2003. Skipað skal í stjórn Rannsóknasjóðs samkvæmt lögum þessum eigi síðar en 1. apríl 2003.``

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með ofangreindri breytingu.

Undir þetta skrifa Gunnar Birgisson, formaður og frsm., Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Hjálmar Árnason og Pétur H. Blöndal.

Með frv. þessu og hinum tveimur er verið að búa til rammann fyrir vísindarannsóknir og þróun þeirra hér á landi. Þegar tilbúningi hans er lokið er hægt að fara að huga að fjármálum. Það er alveg ljóst að meiri fjármuni vantar inn í þetta en fyrst var að búa til rammann og síðan er hægt að stíga næsta skref.

Að lokum legg ég til að þetta mál gangi til 3. umr.