Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 15:18:18 (2841)

2003-01-21 15:18:18# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins frá meiri hluta iðnn. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag er þetta liður í einu af þremur frumvörpum í svokölluðum vísindapakka, þrílembingi vísinda og tækni sem snýr að þekkingarsköpun og því að hagnýta þekkinguna í vísindasamfélaginu.

Hér hefur einnig komið fram, herra forseti, að allshn., menntmn. og iðnn. hafa unnið þessi frumvörp nokkuð samhliða. Á þskj. 689 eru talin upp nöfn þeirra umsagnaraðila og gesta sem heimsóttu nefndirnar.

Því frv. sem hér er sérstaklega til umfjöllunar og ég geri grein fyrir nál. frá meiri hluta iðnn. um er ætlað að brúa bilið á milli þekkingarsköpunar sem verður til í vísindasamfélaginu og frumkvöðla og fyrirtækja sem hagnýta þekkinguna. Með öðrum orðum er með frv. leitast við að byggja brú sem geti orðið til að hagnýta hið merka starf sem fram fer í vísindasamfélaginu og byggja úr þekkingu, verðmæti, fyrirtæki og þar fram eftir götunum.

Sú leið sem lagt er til í frv. að farin verði til að ná þessu markmiði er annars vegar sú að koma á vegum Iðntæknistofnunar Íslands upp nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hins vegar er lagt til að stofnaður verði sérstakur tækniþróunarsjóður sem hafi það hlutverk að styrkja þróun og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þar kemur glöggt fram þessi skírskotun yfir til atvinnulífsins, þ.e. að sækja nýsprota, hugmyndir úr vísindaheiminum, hrinda þeim í framkvæmd og stuðla þannig að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Það má segja að frv. þetta sé í raun afskaplega kærkomið því eins og margsinnis hefur komið fram í fjölmiðlum og í umræðum á Alþingi hefur mikið verið um það rætt að skortur sé á svokölluðu þolinmóðu fjármagni, þ.e. fjármagni fyrir frumkvöðla sem eru að hasla sér völl með ný verkefni. Vitið og fjármagnið þurfa ekki endilega að fara saman því oft hafa frumkvöðlar takmarkaðan aðgang að eða takmörkuð umráð yfir fjármagni.

Það hefur jafnframt komið fram, herra forseti, m.a. í nýlegri alþjóðlegri könnun sem birt var ekki alls fyrir löngu, að nýsköpun er í sjálfu sér afskaplega vel sinnt og hún er mikil hér á landi. Hins vegar hefur veikleikinn verið sá sem ég nefndi, þ.e. aðgangur að þessu þolinmóða fjármagni. Með þessu frv. er hugsunin einmitt sú annars vegar að styðja við bakið á þeim frumkvöðlum sem vilja nýta sér þá þekkingu og nýsprota sem koma úr vísindasamfélaginu og hins vegar að styðja við bakið á þeim með því að opna fyrir aðgang að þessu þolinmóða fjármagni, einmitt þegar nýsprotafyrirtækin standa á brauðfótum hvað fjárhagslega stöðu varðar, meðan þau eru í þróunarstarfi. Næsta skref á eftir er þá væntanlega að þau gangi á markað þar sem aðrar og hefðbundnari fjármálastofnanir koma inn.

Það ætti því ekki að koma á óvart, herra forseti, að meiri hluti iðnn. mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og mælir með því að það gangi til 3. umr. Undir það rita Hjálmar Árnason, formaður og framsögumaður, Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Kjartan Ólafsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.