Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 15:36:39 (2843)

2003-01-21 15:36:39# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú eru þau komin hingað til 2. umr. frv. þrjú um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, frv. til laga um Vísinda- og tækniráð og um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Þessi frv. hafa verið nokkuð lengi í pípunum. Það verður að segjast að það kom ákaflega flatt upp á vísindasamfélagið á Íslandi þegar hæstv. fyrrv. menntmrh., Björn Bjarnason, flutti ræðu á aðalfundi Ranníss árið 2001 og boðaði þessar breytingar. Þær hugmyndir sem þar voru settar fram um hvað í þessum pakka ætti að verða hafa sem betur fer tekið nokkrum jákvæðum framförum síðan þá. Fyrir liggur engu að síður að áður hafði verið nokkuð víðtæk sátt, loksins, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir á Íslandi, þ.e. þær aðferðir sem var beitt. Það hafði reyndar ekki alltaf verið svo. Eftir síðustu lagabreytingar hafði verið nokkuð víðtæk sátt um þessi mál eins og kemur hér fram í umsögn læknaráðs Landspítala þar sem segir m.a. að læknaráð hafi áður vakið athygli á því að það fyrirkomulag við mat á umsóknum sem byggt hafi verið upp á undangengnum árum af Rannís hafi verið vel gegnsætt, því hefði verið vel treyst og það tryggði eins og kostur var vönduð vinnubrögð í sambandi við úthlutun úr sjóðnum. Þetta hafi byggst á mati fagráða og síðan á úthlutun samkvæmt mati sérstakrar úthlutunarnefndar sem valin hefði verið af Rannís.

Það var sem sagt víðtæk sátt um þær aðferðir sem beitt var en það voru auðvitað heilmikil og stöðug vonbrigði vegna þess fjármagns sem til þessa málaflokks var varið. Hefðu kannski ýmsir ætlað að fyrst það átti að koma fram með svo róttækar breytingar sem hér liggja fyrir hefði fylgt eitthvað með um aukinn opinberan stuðning við vísindarannsóknir á Íslandi, sérstaklega vegna þess að stöðugt er vísað til að þetta fyrirkomulag sé að finnskri fyrirmynd. En það er einmitt það sem er sérstakt við þau lög, sem á sínum tíma voru samþykkt í Finnlandi og eru talin hafa stuðlað að miklum framförum í vísindarannsóknum þar, að inn í þau lög, inn í löggjöfina sjálfa, var byggt að fjármagn til vísindarannsókna var aukið ár frá ári. Það er kannski fyrst og fremst það sem hefur valdið þeirri stökkbreytingu sem varð í Finnlandi eftir 1990, að það var veitt mun meira fjármagn en áður til vísindarannsókna og ekki bara til vísindarannsókna, heldur til háskólanáms í t.d. tæknigreinum, lögð á það mikil áhersla miðað við það sem áður hafði verið.

Það er auðvitað þessi alvarlegi fjárskortur sem hefur háð viðgangi vísindarannsókna hér á landi á undanförnum árum. Það er svo komið, eins og hér hefur áður komið fram í umræðunni, að vísindamenn tala um að svo lítill hluti af umsóknum fái styrk, jafnvel þótt þær séu metnar hæfar, að það taki því ekki lengur að vera að sækja um þetta, það verði að leita að fjármögnun eftir einhverjum öðrum leiðum.

Ég efast ekki um að markmið þessara frv. sé að efla vísindarannsóknir á Íslandi, ég efast ekki um að sá er tilgangurinn. En einhvern veginn er það svo að eftir að hafa farið í gegnum þessi frv. og þá umræðu sem við höfum tekið þátt í, t.d. í hv. menntmn., hefur maður ekki sannfærst um að tilkoma frv. ein og sér muni efla vísindarannsóknir á Íslandi. Svo ég taki eitthvað til er það mjög sérkennilegt að þarna skuli vera lögð fram þrjú frv. Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki sameinað í einu frv. eins og hér hefur áður komið fram á fundinum, frv. sem heyrði þá undir hæstv. menntmrh. eins og Rannís hefur hingað til gert? Ég held að verið sé að drepa þessum málum á dreif með því fyrirkomulagi sem hér er viðhaft og hefði verið mun einfaldara og gegnsærra að hafa þessi lög í einu frv. Það hefur komið fram að þetta hafi verið gert vegna ágreinings milli ráðuneyta um hvernig verkaskiptingu skyldi háttað og ég verð að segja að ég harma það að sú skyldi verða niðurstaðan af þessu máli að það skyldi þurfa að fara með þetta fram í þremur hlutum, heyrandi undir þrjú ráðuneyti.

Það hefur komið fram í umsögnum að markmið þessara frv. sé kannski fyrst og fremst að auka bein pólitísk afskipti af stefnumótun og þróun vísinda og tækni. Vonandi er tilgangurinn ekki sá en það verður að segjast eins og er að hvernig þessum málum er háttað og hvernig þetta allt er sniðið býður þessari hættu heim, t.d. varðandi skipun Vísinda- og tækniráðs þar sem forsrh. skipar 14 menn, fjóra samkvæmt tilnefningu háskólastigsins, tvo samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands --- og þó að ég vilji Alþýðusambandi Íslands allt hið besta verð ég að segja: Hvers vegna ekki BHMR? Hvers vegna ekki BSRB? Hvers vegna ekki Kennarasambands Íslands? Ég undrast það að yfir öll stéttarfélögin eigi að ganga þessir tveir fulltrúar sem á að skipa samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands; tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins --- mér heyrðist á umsögnum þeirra á fundum okkar í haust og fyrravor að þeir væru ekki allir á eitt sáttir um það; og svo einn samkvæmt tilnefningu menntmrh., einn samkvæmt tilnefningu iðnrh., einn samkvæmt tilnefningu sjútvrh., einn samkvæmt tilnefningu landbrh., einn samkvæmt tilnefningu heilbr.- og trmrh. og einn samkvæmt tilnefningu umhvrh.

[15:45]

Síðan er ekki orð um það meir hverjum kostum eða hvaða hæfileikum þessir menn þurfa að vera búnir eða hvaða reynslu þeir þurfi að hafa sem á að skipa í Vísinda- og tækniráð. Ég verð að segja að mér finnst þarna vera teflt nokkuð djarft. Ég veit að margir hafa tekið undir það með mér að til þyrfti að koma miklu nánari skilgreining á því hvaða reynslu og hvaða bakgrunn það fólk ætti að hafa sem þarna væri skipað. Ég minni á að það kemur fram í umsögn Raunvísindstofnunar Háskólans að það sé mikið atriði að í slíkt ráð veljist einstaklingar, auk þá ráðherra sem er gert ráð fyrir að sitji hér, sem allt í senn hafa stundað rannsóknir með árangri, hafa reynslu af stjórn rannsóknarverkefna, af stjórnun almennt og reynslu af hagnýtingu á rannsóknarniðurstöðum.

Ég verð að spyrja: Ef það er tilgangurinn að slíkir menn verði skipaðir í þetta ráð, hvers vegna er það ekki sett í lagatextann? Hvers vegna er því gefið undir fótinn að menn geti ímyndað sér að ráðherrarnir bara skipi ráðuneytisstjóra sína eða helstu pólitísku ráðgjafa í þetta ráð? Mér finnst að það hefði verið mun hreinlegra að ganga frá því með lagasetningu hvers konar fólk ráðherrar væru að skipa þarna sér við hlið, auk þess sem þeir eiga náttúrlega föst sæti í ráðinu sem frv. gerir ráð fyrir, að sagt er að finnskri fyrirmynd. Mér finnst það ekkert sérstaklega til fyrirmyndar. Ég verð að segja það. Ég hafði náttúrlega ekki tækifæri til að fara í þessar Finnlandsferðir til að kynna mér náið hið finnska fyrirkomulag. Ég hef þó reynt að spyrjast fyrir um þetta. Mér skilst að að vísu sé þessu þannig varið með einn af þessum sjóðum sem styrkja vísindastarf og tækniframfarir í Finnlandi, en aðrir sjóðir, öðruvísi skipaðir, veiti einnig styrki. Jafnvel þó að Finnar séu ekki stór þjóð á mælikvarða heimsins eru þeir þó stórþjóð á okkar mælikvarða og hafa veitt af miklum myndarskap til þessara verkefna, ekki bara úr þessum eina sjóði sem hér er alltaf vitnað til heldur einnig úr öðrum sjóðum, enda hafa þeir náð athyglisverðum árangri. En það hafa einnig aðrir gert.

Einnig er talað mikið um, m.a. í skýrslunni sem við fengum nú seint og um síðir um þessar Finnlandsferðir formanna nefndanna sem um þessi mál áttu að fjalla, og mikið hefur verið úr því gert að Finnar leggi mikla vinnu í uppbyggingu vísinda- og tækniþróunar og að þeir hafi þá hefð í þróun sinna mála, t.d. í þingi, að þar sé unnið að málum þindarlaust þangað til um þau ríki sátt. En það verður nú að segjast eins og er að ýmislegt liggur betur fyrir þessari ríkisstjórn en að hafa samráð.

Ég rak augun í það í umsögn frá Bandalagi háskólamanna að þeir gagnrýna það, og það kemur mér ekki á óvart, að við gerð þessa lagabálks alls hefur aldrei á neinu stigi verið haft samráð við heildarsamtök háskólamanna í landinu. Hefði ég þó haldið að að þau samtök hefðu á að skipa ýmsu því fólki sem hefði verið mjög gagnlegt að fá til samvinnu og samráðs einmitt þegar þessi frv. voru í smíðum en ekki að ætlast til að það samþykki þau svo hrá þegar þau eru lögð fram fullsköpuð og varla má hnika til orði í þeim.

Ég vil líka minnast á þessa sérstöku framtíðarnefnd í finnska þinginu sem hefur starfað frá 1994 og við fengum fyrir tilstilli hæstv. menntmrh. Tómasar Inga Olrichs að kynnast í Rúgbrauðsgerðinni í fyrra þegar formaður þeirrar nefndar var hér á ferð. Ég vil þakka fyrir það. Það var mjög gagnlegur fundur sem okkur var boðið að sækja. Þeir hafa nefnd sem hefur það hlutverk að finna upp framtíðina, ef svo má að orði komast, sem er auðvitað hið merkasta mál. Sú nefnd hefur sérstaklega beint sjónum að byggðaþróun, framtíð vinnunnar og eðli á tímum þekkingarþjóðfélags og þekkingarstjórnun. Það er mjög mikilvægt að innan þjóðþings starfi slík nefnd sem sérstaklega leitast við að safna saman upplýsingum um í hvaða átt þróunin gengur og gerir svo spár til að auðvelda stjórnvöldum að bregðast við. Ég vildi óska þess, fyrst að við erum farin að læra af Finnum á annað borð, að kannski reyni íslenska þingið eða íslensk stjórnvöld að gera eitthvað sambærilegt við finnsku framtíðarnefndina. Það mundi ábyggilega verða til góðs. Ég er ekki í vafa um að það mundi t.d. efla vísindarannsóknir og efla stöðu þeirra sem þurfa að segja til um hvað eigi sérstaklega að styrkja hverju sinni.

Að lokum vil ég ítreka það sem oft hefur komið fram í máli manna við þessa umræðu að lykillinn að auknum árangri í vísindarannsóknum á Íslandi er að efla þá fjármögnun sem þangað rennur. Ef það hefði verið hægt hefði verið æskilegt, og ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt, að þess hefði verið getið eða þess séð á einhvern hátt stað, t.d. í greinargerð eða lagasetningu með þessum frv., hvernig það ætti að gera. Mér sýnist þvert á móti að með frumvörpunum fylgi umsagnir frá fjmrn. sem hreinlega gera ráð fyrir að vegna samlegðar- og sparnaðaráhrifa ætti samþykkt þessara frv. að geta leitt til lækkunar útgjalda vegna ákveðinna þátta þessa máls. Ég harma að hér skuli ekki vera skýrar sett fram hvernig eigi að fjármagna þetta í framtíðinni því að ef fjármögnun verður ekki tryggð þá hefur það engan tilgang að hræra í þessum potti endalaust og breyta skipulagi stjórnunar einhvers sem ekkert er.

Að auki verð ég að segja svona alveg í blálokin að miðað við stöðuna núna í skoðanakönnunum þegar Sjálfstfl. virðist vera orðinn minni en Samfylkingin sem gæti nú vísað til ákveðinna atriða sem gætu gerst í framhaldi næstu kosninga þegar einhverjir aðrir flokkar en Sjálfstfl. gætu setið við stjórnvölinn á Íslandi, þá finnst mér það að þeir skuli berjast fyrir samþykkt akkúrat þessara frv. sem setja stjórn vísindamálanna algjörlega í hendur pólitíkusa eða alla vega það hvert fjármagni skuli beint --- þ.e. mér finnst sem sagt framlagning þessara frv. af þeirra hálfu hér í þinginu vera hættuspil.