Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:50:23 (2852)

2003-01-21 17:50:23# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. 2. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:50]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar að mér finnst hæstv. ráðherra hafa svarað spurningum hér afar málefnalega og ég þakka ræðu hans hér í lokin á þessari umræðu. Mér finnst hún varpa ljósi á ýmsa þætti sem hafa verið orðaðir í ræðum hv. þingmanna hér í dag.

Hæstv. ráðherra segir að mikið starf hafi verið af hendi leyst. Ég held því fram, sem ég áður kom inn á í ræðu minni, að nefndir þingsins hefðu getað unnið betur í þessum málum. Sannarlega hefur þessi sjö manna nefnd ráðherra sem starfaði í málinu á milli þinga unnið vel, ég viðurkenni það og sé, en ég hefði kosið betri tíma og meiri umfjöllun í þingnefndunum. Ég vil meina, herra forseti, að kannski skýrist aukin samstaða í háskólasamfélaginu um þessi frv. fyrst og síðast af því að menn eru orðnir úrkula vonar um að fjármunir til vísinda- og tæknirannsókna verði auknir og þess vegna hafi þetta verið eina ráðið. Þessi formbreyting er það eina sem stjórnvöld hafa boðið og menn hafa verið orðnir, eins og ég segi, úrkula vonar um að nokkuð annað yrði gert.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna formleg aðkoma þjóðarskóla okkar, Háskóla Íslands, er ekki meiri en raun ber vitni. Mér heyrðist hæstv. ráðherra tala í fremur niðrandi tóni í sínu síðasta andsvari eða í lok ræðu sinnar áðan, ég man ekki hvort heldur var, um aðkomu Háskóla Íslands, okkar þjóðarháskóla, að þessum málum.

Hinum faglegu vinnubrögðum verður ekki breytt, segir hæstv. ráðherra, og ég fagna því og treysti því auðvitað að hæstv. ráðherra standi vörð um það. En hverju svarar þá hæstv. ráðherra þeirri gagnrýni sem mikið hefur verið fjallað um í alþjóðasamfélaginu og víðar, að það sé tilhneiging nú á tímum hjá stjórnmálamönnum, ráðandi öflum, valdhöfum, að setja fingurna inn í vísindarannsóknir og stjórna þeim? Þetta styður kannski það sem ég var að segja áðan í frammíkalli að hér væri eðlilegt að gagnrýna að hér gæti verið um einhvers konar ríkisstjórnarstefnu að ræða í vísindarannsóknum.