Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:52:44 (2853)

2003-01-21 17:52:44# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu verð ég að lýsa því yfir að eftir að ég tel mig hafa lagt mig fram um að auka skilning á þessum málum, bæta umfjöllunina og upplýsingastreymið um málið og var það að sjálfsögðu gert í þeirri von að almenn samstaða mundi skapast um þetta mál. Ég hef orðað það svo að málið væri of gott til þess að ekki yrði breið og almenn samstaða um það. Þess vegna hefði ég fagnað því ef stjórnarandstaðan hefði getað staðið að þessu með stjórnarflokkunum.

Að því er varðar Háskóla Íslands er fjarri því að talað hafi verið niður til hans. Hins vegar er ég alveg reiðubúinn til þess að gagnrýna það sjónarmið að forustumenn stofnana eins og Háskóla Íslands eða Rannsóknastofnana atvinnuveganna telji málum best borgið með því að þeir láti sér ekki nægja að stýra sínum eigin stofnunum heldur vilji sitja í ráðum eins og þessum. (KolH: Það vilja ráðherrarnir líka.) Það er af nógu að taka í vísindasamfélaginu. Þar geta komið menn með mjög fullkomna þekkingu á vísindamálum inn í þetta ráð og gert þar meira gagn en forustumenn og forstöðumenn ríkisstofnana. Það er hins vegar beinlínis hlutverk stjórnmálamannanna að axla þá ábyrgð að taka þátt í stefnumörkuninni og þess vegna eiga þeir beint erindi þarna inn. Og ég tek það fram að háskólasamfélagið á aðgang að þessu ráði eins og lögin um Vísinda- og tækniráð sýna fram á þannig að þeirra hagsmunir eru þar fullkomlega tryggðir og með eðlilegum hætti.

Að lokum vil ég geta þess að þau þjóðfélög sem hafa náð mestum framförum og hafa getað skilað mestum hagvexti og bestum lífskjörum til þegna sinna eru þau sem hafa borið gæfu til þess að búa til vettvang þar sem vísindamennirnir og stjórnmálamennirnir tala saman og ná saman um verkefni sín.