Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:55:00 (2854)

2003-01-21 17:55:00# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. 2. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:55]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal ég draga úr mikilvægi þess að menn tali saman og að leitað sé samstöðu um mál. Og ég er sammála hæstv. ráðherra um að í máli af þessu tagi þurfi að leita víðtækrar samstöðu og hann telur sig hafa gert það en greinilega fyrst og fremst úti í háskólasamfélaginu, vísindamannasamfélaginu og fræðamannasamfélaginu.

Ég gagnrýni það að stjórnarandstaðan skyldi ekki hafa verið höfð meira með í ráðum þegar þetta mál var allt saman hannað og lá á teikniborðum stjórnvalda. Þetta er dæmigert mál sem t.d. ríkisstjórnir í Skandinavíu hefðu leitað eftir breiðri samstöðu um. Í löndum þar sem minnihlutastjórnir eru viðhafðar eru menn vanir að leita eftir breiðri pólitískri samstöðu þvert á flokka. Ég vil meina að þetta mál hefði getað litið öðruvísi út í dag ef slík vinnubrögð hefðu verið viðhöfð hér, og þar með held ég að aðkoma stjórnarandstöðunnar að þessum málum hefði getað auðgað málið til muna, hefði getað lægt öldur í vísinda- og fræðamannasamfélaginu sem eru til staðar og hefði getað skilað þessu máli mun betur í höfn en hæstv. ríkisstjórn er að gera að mínu mati.

Varðandi mælikvarðana sem hæstv. ráðherra talar um --- hann talar um verga landsframleiðslu eða reyndar ýmist verga landsframleisðlu eða verga þjóðarfamleiðslu --- þegar verið er að tala um framlög Íslands til vísindarannsókna miðað við önnur lönd vil ég segja að það er ekki endilega rétti mælikvarðinn. Við verðum að sjá þessa mælikvarða á annan hátt, við verðum líka að sjá hvernig frammistaða okkar er með tilliti til höfðatölu þjóðarinnar eða fjölda stúdenta, fjölda þeirra sem stúdera á háskólastigi. Og ég verð að viðurkenna að í þessari umfjöllun nefndanna hef ég ekki séð annan samanburð en þann sem hæstv. ráðherra nefnir, þ.e. verga landsframleiðslu sem Rannsóknarráð hefur sýnt okkur og OECD hefur látið reikna út og við höfum séð sem súlurit þar um. Ég hefði viljað sjá þetta mælt á fleiri mælikvarða.

En ég vil segja hér í lokin, herra forseti, að umræðan hefur verið kjarnyrt og góð og hana ber að þakka.