Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:24:48 (2860)

2003-01-21 18:24:48# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessar umræður. Það var reyndar aldrei meiningin að einkavæða vatnsveitur. Það var snúið út úr orðalagi í frv. í fyrra. Það var aldrei meining mín að bera fram frv. um að einkavæða vatnsveitur, enda er vatnsöflun skylduverkefni sveitarfélaga og eðlilegt að svo sé.

Það er ekki markaðsvæðing í þessu frv. heldur er skilyrt að vatnsveita skuli að meiri hluta ávallt vera í eigu sveitarfélags eða ríkis. 2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,4. gr. laganna verður svohljóðandi:

Sveitarfélag, sem lagt hefur vatnsveitu, hefur einkarétt á rekstri hennar og sölu vatns á því svæði sem vatnsveitan nær yfir og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins. Einkaréttinn getur sveitarstjórn framselt stofnun eða fyrirtæki sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga um ákveðið tímabil í senn`` --- um ákveðið tímabil í senn --- ,,með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til.``

Nokkuð er um það að vatnsveita sé í eigu fleiri en eins sveitarfélags og eðlilegt er að hægt sé að reka hana í hlutafélagsformi finnst mér.

Mér þykir líka eðlilegt að sama gildi um vatnsveitur og hitaveitur og rafveitur hvað varðar arðgreiðslu, að unnt sé að taka allt að 7% arð af eigin fé. Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæði þetta gildir eingöngu um vatnsveitu sem er ekki sjálfstæður skattaðili og er að öllu leyti í eigu eins eða fleiri sveitarfélaga.``

Ég hef enga trú á því að við þurfum að óttast það að íslenskar vatnsveitur muni freista gróðapunga til að reyna að sölsa þær undir sig ef arðgreiðslan má ekki að vera meiri en 7%. Ég held að þeir fésýslumenn muni sækja eftir hærri arði. Ég held að það þurfi að vera skipulag á þessum málum og ég vil að það sé fest rækilega í lög að sveitarfélögin hafi þetta á valdi sínu m.a. vegna þess, sem ástæða er til að komi fram í þessari umræðu, að vatn er einhver mesta auðlind heimsins og vatn er að verða og verður sú vara sem e.t.v. verður eftirsóknarverðust í framtíðinni.