Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:28:13 (2861)

2003-01-21 18:28:13# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að snúið hafi verið út úr orðum hans eða frv. á sínum tíma um að það opnaði á einkavæðingu vatnsins því að ég tel að það hafi gert það. Það var hins vegar sagt að ekki stæði til að selja vatnsveiturnar eða einkavæða þær, aðeins heimila formbreytingu á sama hátt og verið var að heimila formbreytingu á Pósti og síma á sínum tíma. Það stóð aldrei nokkurn tíma til að selja Landssímann, aldrei nokkurn tíma. Þáv. hæstv. ráðherra, Halldór Blöndal, lýsti því yfir --- ég á það á prenti --- að í sínum huga kæmi ekki annað til greina en að sú stofnun væri í meirihlutaeign ríkisins, almennings. En svo fór sem fór og þetta er þula sem hefur alltaf verið höfð yfir þegar fyrstu skrefin eru stigin í átt til einkavæðingar á almannastofnunum.

Ég tók það hins vegar fram að ég hef aldrei grunað hæstv. félmrh. um að næra slíka drauma í sínu brjósti, aldrei nokkurn tíma. Ég hef hins vegar verið að benda á aðrar leiðir til að svara þessu kalli sem hæstv. ráðherra er að vísa í, þ.e. kröfur sveitarfélaganna sem vilja ganga til samstarfs hugsanlega við önnur sveitarfélög um að búa við rýmri möguleika til skipulagsbreytinga og þar vísa ég í byggðasamlag. Það hefur verið reynt. Reynslan hefur verið ágæt á höfuðborgarsvæðinu af sameiginlegum rekstri slökkviliðanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, svo að dæmi sé tekið. Ég held að þetta sé ágætt rekstrarform fyrir almannaþjónustu af þessu tagi.