Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:30:31 (2862)

2003-01-21 18:30:31# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þrátta við hv. þm. um orðalag frv. í fyrra. Við skulum ræða þetta frv. sem er á þskj. 533. Ég tel að þar sé slegið í gadda að vatnsveitur skuli vera að meiri hluta a.m.k. í opinberri eigu. Við þurfum ekki að þræta um það.

Það getur verið smekksatriði hvort arðsemiskrafan sé passleg, hvort hún er of há eða hvort hún er ekki nægileg. Þetta er til samræmis við hinar veiturnar, rafveitu og hitaveitu. Þess vegna eru þessi 7% í þessu frv. Mér þykir eðlilegt að það sama gildi um þetta.

Það getur komið til að rekstur vatnsveitu verði mikið gróðafyrirtæki. Við skulum ímynda okkur að upp gangi áætlanir manna um útflutning vatns frá Hvammstanga þar sem í undirbúningi er að hefja stórfelldan útflutning. Sú vatnssala gæti staðið undir eða verið auðsuppspretta fyrir það samfélag og ég sé ekkert á móti því að hafa þessa heimild.