Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:52:56 (2872)

2003-01-22 13:52:56# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að taka þetta mál upp til umræðu. Það er áhyggjuefni að atvinnuleysi skuli vera að aukast í landinu. Í desember var það 3% en á sama tíma fyrir ári 1,9%. Að baki þessari prósentutölu eru tæplega 4.500 manns. Það er áhyggjuefni ef okkur tekst ekki að slá á atvinnuleysið.

Í gær var gerð tilraun til þess að ræða atvinnuástandið með skírskotun til fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem við mörg hver erum reyndar að reyna að sporna gegn. Við kölluðum eftir þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hygðist grípa til, ekki síst með tilliti til atvinnuástandsins. Við fengum engin svör. Við bentum á að eitt af því sem rætt væri í fjmrn. og í Stjórnarráðinu væri að draga úr opinberum framkvæmdum. Fjmrn. hefur talað um að draga úr fjárfestingum um 10%, segir reyndar í sinni skýrslu frá 8. janúar að það sé ekki nóg.

Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta aukin atvinna eða þýðir þetta minni atvinna? Skyldi hún bitna á körlum eða konum sérstaklega? Ég held konum, fyrst og fremst konum. Þetta er ekki vandamál langt inn í framtíðina, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, heldur í nútímanum.

Annað sem við ræddum um eru áhrif af vaxtahækkun. Talað er um að raunvextir muni hækka um 2%. Hvað þýðir það fyrir atvinnufyrirtækin? Það þýðir að þau munu eiga í vaxandi erfiðleikum við lántökur, við að færa út kvíarnar. Hvað þýðir það fyrir atvinnuástandið? Erfiðara atvinnuástand.

Við ræddum um innflutning á erlendu vinnuafli. Það er talað um að Impregilo muni flytja inn allt sitt vinnuafl. Málmiðnaðarmenn álykta núna, ekki í framtíðinni. Þetta snertir nútíðina. Við ræddum um gengið, áhrifin sem þessar framkvæmdir hafa á gengið. Gengið er þegar farið að styrkjast. Það hefur tvær hliðar, það eykur kaupmátt okkar gagnvart aðkeyptri vöru frá útlöndum en það veikir útflutningsfyrirtækin, sjávarútvegsfyrirtækin og fyrirtæki í ferðaiðnaði. Það hefur líka áhrif á atvinnuástandið.

Við þessu fáum við engin svör. Hv. þm., málshefjandi, þetta snertir nútímann og ekki bara framtíðina.