Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:55:26 (2873)

2003-01-22 13:55:26# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Atvinnuleysi er óæskilegt í hverju samfélagi. Atvinnuleysi hér á landi er um 3,3--3,5% um þessar mundir og þykir hátt á okkar mælikvarða. En náttúrlegt atvinnuleysi hér á landi er kannski um 2%. Ef við lítum á aðrar EFTA-þjóðir er náttúrlegt atvinnuleysi 4--5% og atvinnuleysi í þeim löndum er milli 5 og 10% um þessar mundir.

Á undanförnum árum hefur verið mikill skortur á vinnuafli hér á landi og frá öðrum löndum hefur komið vinnuafl svo nemur þúsundum ársverka. Á þessum tíma ársins er minnst atvinna en eftir janúarmánuð fjölgar störfum, m.a. í fiskvinnslu og í tengslum við framkvæmdir ríkis, sveitarfélaga og einkageirans. Það fer á fulla ferð eftir þennan mánuð. Þá aukast brátt umsvif í ferðaþjónustu og ekki má heldur gleyma fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun sem munu auka framboð starfa til muna. Það er því ekki ástæða til svartsýni heldur bjartsýni þegar líða tekur á árið, þegar efnahagslífið styrkist enn frekar.

En því miður eru hættumerki á lofti verði ekki gripið strax í taumana. Raungengi krónunnar hækkar stöðugt sem gerir stöðu útflutnings- og samkeppnisatvinnuveganna óþolandi, svo ekki sé talað um ferðaþjónustuna. Ef þessari þróun verður ekki snúið við munu mörg störf glatast í þessum atvinnugreinum. Verðbólgan er engin orðin en vextir hafa ekki lækkað í samræmi við það og eru of háir. Það er hlutverk Seðlabankans að sjá til að ekki verði of miklar sveiflur í íslensku atvinnulífi vegna sveiflna í gengi og vöxtum.

Ég skora á þá ágætu menn sem þar stjórna að vakna til lífsins og taka til þeirra ráða sem þarf til að snúa þessari þróun við.