Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:59:43 (2875)

2003-01-22 13:59:43# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Atvinnuleysi í desember hefur ekki verið meira á sama tíma frá því 1997. Vinnumálastofnun spáir 3,5--4% atvinnuleysi í janúar og greiningardeild Kaupþings áætlar að það fari í allt að 5% á næstu mánuðum.

Atvinnuleysið nú er öðruvísi en oftast áður. Það bitnar á öllum hópum, einnig á menntafólki. Efnahagsstjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur haft þær afleiðingar að nýsköpun í atvinnulífinu hefur koðnað niður. Samdráttur undanfarið og sameining stórfyrirtækja hefur einnig leitt til aukinna uppsagna og mun gera það áfram.

[14:00]

Eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti á í umræðum í gær um áhrif virkjanaframkvæmda á Austurlandi hefur þróun gengisins þegar sett alvarlegt strik í reikning útflutnings- og samkeppnisfyrirtækja og ef þessi staða verður óbreytt mun hún enn auka uppsagnir og atvinnuleysi. Fjöldi fyrirtækja mun loka því að þau ráða ekki við þá gengisþróun sem fyrirhugaðar framkvæmdir hafa þegar kallað fram. Atvinnuleysi er í raun mun meira en mælingar sýna. Það er mikið dulið atvinnuleysi. Margir menntamenn skrá sig ekki atvinnulausa. Þeir fara í nám og bíða með að skrá sig. Ég þekki allmörg dæmi um það.

Nú er mikilvægt að grípa til aðgerða og flýta verkefnum á höfuðborgarsvæðinu til að sporna við auknu atvinnuleysi. Ég nefni þar Sundabrautina og aðrar brýnar vegaframkvæmdir. Ég kalla nú þegar eftir aðgerðum stjórnvalda til að leysa vanda hinna fjölmörgu sem nú líða vegna atvinnuleysis og til þess að koma í veg fyrir að þeim fjölgi enn sem sviptir eru mannlegri reisn á þennan hátt.