Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:05:44 (2878)

2003-01-22 14:05:44# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Íslendingar eru vinnusöm þjóð og kann því illa að búa við atvinnuleysi. Atvinnumál eru sá þáttur sem við byggjum lífsafkomu okkar á og því þarf að bregðast við þegar atvinnuleysi gerir vart við sig eins og um þessar mundir. Undanfarin ár hefur atvinnuleysi vart verið mælanlegt en því miður eru tölur atvinnulausra háar um þessar mundir eða 5.700 skráðir, þar af um 1.016 í hinu nýja Suðurkjördæmi en þar er atvinnuleysi mest bundið við Suðurnesin og Vestmannaeyjar. Hafa ber í huga að á þessum árstíma versnar ástandið iðulega í janúar miðað við desembermánuð. Á þessum stöðum hafa orðið miklar breytingar frá því sem var. Á Suðurnesjum hafa komið til uppsagnir hjá stórum fyrirtækjum t.d. í flugrekstri og breytingar hafa orðið í útgerð og vinnslu sjávarafurða með nýrri tækni sem hefur fækkað störfum.

Í Vestmannaeyjum er atvinnuleysi að mestu bundið við vinnu í sjávarútvegi enda sjávarútvegur undirstaða byggðar í Vestmannaeyjum. Þar er reyndar hæsta löndunarhöfn landins og kvótastaða mjög góð. Við þingmenn Suðurlandskjördæmis vorum fyrir nokkrum dögum á fundum í Vestmannaeyjum með verkalýðsfélögunum, með atvinnurekendum og bæjarstjórn. Á þeim fundum kom fram mikill vilji til að vinna bug á þessum vanda í sameiningu. Við höfum sem betur fer tæki til mótvægisaðgerða. Má þar nefna svæðismiðlanir sem vinna ötullega að því að halda námskeið fyrir atvinnulausa, aðstoða fólk við að leita sér að vinnu og þær standa einnig fyrir átaksverkefnum og hægt er að nýta möguleika fyrir fyrirtæki til að ráða fólk í vinnu af atvinnuleysisskrá.

Þá má minna á atvinnuþróunarfélögin, eignarhaldsfélögin, Nýsköpunarsjóð og Kvennasjóð. Tækin eru fyrir hendi og það er hlutverk okkar allra að snúa þessari þróun við.

Mikið hefur verið rætt um Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð. Það stóra verkefni mun koma öllum til góða, skapa atvinnutækifæri fyrir fjölda fólks. Það mun ekki aðeins koma Austfirðingum til góða heldur öllu landinu í heild.