Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:10:24 (2880)

2003-01-22 14:10:24# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Atvinnuleysi er vissulega alvarlegt mein í öllum þjóðfélögum bæði hér og annars staðar því að því fylgja ýmis félagsleg vandamál og þess vegna er auðvitað vert að ræða þau mál. En það er dálítið merkilegt hvað hv. þm. Alþfl. sáluga eru fljótir að gleyma. Þeir eru búnir að gleyma því hvernig ástandið var 1995 þegar þeir einmitt hættu í ríkisstjórn. Þá var ef ég man rétt um 5--6% atvinnuleysi. Hjól atvinnulífsins voru að stöðvast og annað slíkt. En auðvitað eru þeir búnir að gleyma þessu eins og ýmsu öðru vegna þess að sá flokkur er hættur að starfa og heitir nú Samfylkingin.

En ég held að það bæti okkur heldur ekki þrátt fyrir alvarleika þessa máls að vera með þvílíkt svartsýnisraus eins og margir hv. þm. hafa verið með hér í dag vegna þess að vissulega kappkostar ríkisstjórnin að vinna að þessum málum. Meðal annars vorum við að ræða um stóriðjumál í gær og það er alveg ljóst að stóriðjan á eftir að hafa mjög mikil og vaxandi áhrif á atvinnu á Íslandi, það er alveg ljóst og skiptir auðvitað mjög miklu máli í samfélagi okkar.

Einnig hefur ríkisstjórnin unnið að því að lækka skatta á fyrirtækjum til þess að auka framlegð í landinu. Vextir hafa einnig verið að lækka þannig að þetta skiptir atvinnulífið gríðarlega miklu máli.

Það hefur líka komið fram í ræðu hjá hæstv. félmrh. að svæðisvinnumiðlanir hafa verið að vinna að ráðgjöf og öðru slíku fyrir atvinnulaust fólk til þess að aðstoða það. Það kemur líka fram að það skiptir máli að flýta opinberum framkvæmdum og það er eitt af því sem ríkisstjórnin mun kappkosta þannig að ég held að svartsýnisraus af þessu tagi dragi kjark og kraft úr þjóðinni en okkur ber að sækja fram í þessum efnum.