Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:12:33 (2881)

2003-01-22 14:12:33# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég einsetti mér í þessari umræðu að fara fram með hófstilltum og málefnalegum hætti til að freista þess að fá skýr svör við fyrirspurnum mínum þess efnis hvað ríkisstjórnin hygðist gera og hvað ríkisstjórnin hygðist segja þeim 5--6 þúsund einstaklingum sem nú horfast í augu við atvinnuleysi. Það er því afskaplega dapurlegt svo ekki sé meira sagt að hæstv. félmrh. skuli reyna með öllum tiltækum ráðum en þó með fullkomnu árangursleysi að tala niður þetta ástand og fara rangt með tölur og halda hinu gagnstæða fram, að hér sé enginn vandi á ferð.

Enn dapurlegra er að heyra blessaðan hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason koma hér og rifja það upp að fyrir sjö árum hafi ástandið verið enn þá verra. Ég vil minnast þess, herra forseti, að þá horfðum við framan í kreppuástand í efnahags- og atvinnulífi og ég ætla svo sannarlega að vona að enginn vilji endurlifa þá tíma né heldur tímann frá 1967 svo ég fari lengra aftur í tímann.

Herra forseti. Ég er að reyna að kappkosta það að við hv. þm. horfumst í augu við veruleikann eins og hann er, að við höfum einhver svör á reiðum höndum gagnvart þeim einstaklingum sem eiga um sárt að binda og gagnvart þeim stóra hópi sem er áhyggjufullur vegna stöðu mála og þeirra spásagna sem fyrir liggja um næstu mánuði. Og ég er hræddur um, herra forseti, að ótti þeirra hafi ekki minnkað við hin fátæklegu svör stjórnarliða á hinu háa Alþingi, því miður. Það er veruleiki málsins, herra forseti, að ríkisstjórnin er hætt í raun. Hún hættir endanlega þann 10. maí nk. og það er ekki seinna vænna.