Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:29:48 (2889)

2003-01-22 14:29:48# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Tvennt sem fram hefur komið í þessum umræðum er íhugunarefni. Annað er að formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, gefur í skyn að ástæða sé til þess að ætla að einhver brestur sé kominn í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég lít ekki svo á. Sá samningur heldur gildi sínu og ástæðulaust að halda að Evrópusambandið muni ekki standa við gerða samninga. Mér finnst satt að segja undarlegt að íslenskir þingmenn skuli gera því skóna að draga úr þeim rétti sem við höfum gagnvart Evrópusambandinu samkvæmt þeim samningi.

Hitt sem fram hefur komið og mér finnst líka áhugavert og rétt að halda til haga er sú ræða sem formaður Samfylkingarinnar í þingsal, hv. 7. þm. Reykv. Össur Skarphéðinsson, flutti. Þar var hann að gæla við að við Íslendingar afsöluðum okkur rétti yfir stjórn fiskveiða, fyrst smátt. Við vitum hver hugsunin er, að hugur Samfylkingarinnar stendur til þess að halda því verki áfram. Það hefur komið skýrt fram í málflutningi Samfylkingarinnar, leynt og ljóst, að þingmenn hennar vilja berjast fyrir því, og hinn mikli leiðtogi Samfylkingarinnar utan þings, ég tala nú ekki um, að við Íslendingar sækjum um inngöngu í Evrópusambandið. Auðvitað stendur hugur þeirra til að ná þeim samningum fram og Íslendingar geti lokið þeirri samningsgerð þannig að við verðum hluti af Evrópusambandinu. Þetta er helgasta baráttumál Samfylkingarinnar.

Leiðtogi utan þings fékk hnút í magann yfir því að ráðist verður í Kárahnjúkavirkjun. Ég er hræddur um að sannir Íslendingar fengju hnút í magann ef við gengjum í Evrópusambandið.