Verkaskipting ráðuneyta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:47:16 (2895)

2003-01-22 14:47:16# 128. lþ. 63.1 fundur 70. mál: #A verkaskipting ráðuneyta# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eitt af því sem ég sem alþingismaður og fyrrverandi, og vonandi tilvonandi, ráðherra batt talsverðar vonir við í samstarfssamningi núverandi stjórnarflokka var sú uppstokkun sem boðuð var í samstarfsyfirlýsingunni frá maí 1999. Ég tel að það sé brýn þörf á að stokka upp í verkaskiptingu ráðuneyta, sameina ráðuneyti, jafnvel fækka ráðherrum, það er partur af þessu.

Mér þykir sem hér sé hæstv. forsrh. að lýsa yfir ákveðinni uppgjöf varðandi þetta verkefni. Það hefur í reynd ekkert gerst frá því að hann kom hingað fyrir tveimur árum með svar sitt. Hæstv. forsrh. rekur það með ágætum rökum að það er mjög erfitt að ráðast í þetta. Þetta er verkefni sem menn þurfa helst að taka rösklega á í upphafi kjörtímabils. Ég þekki sjálfur að það er nokkuð erfitt að hnika til verkefnum milli ráðuneyta. Þó var það nú gert töluvert í þeirri ríkisstjórn sem ég átti sæti í undir hans forsæti.

En ég spyr hæstv. forsrh.: Úr því að þetta er ekki lengra komið, en nefndin hefur unnið mikið og gott starf, er þá ekki hægt að fá áfangaskýrslu um störf og niðurstöðu nefndarinnar eins og þau standa núna, fyrir þinglok?