Verkaskipting ráðuneyta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:50:48 (2897)

2003-01-22 14:50:48# 128. lþ. 63.1 fundur 70. mál: #A verkaskipting ráðuneyta# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil taka fram út af þessu síðasta sem hv. þm. nefndi að þess hefur þó verið gætt að sjá um að fjármagn væri fyrir hendi gagnvart þessari þjónustu að því marki sem hægt er að tryggja það. Það sem hins vegar hefur aðallega verið gagnrýnt af hálfu þeirra sem þessa þjónustu þrá og þurfa að nota er að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um að löggilda táknmálið sem löggilt tungumál hér á landi. Mest hefur verið að því fundið og það hefur tafist, m.a. vegna þess, eins og þingmaðurinn nefndi réttilega, að það hefur verið vísað í starf þessarar nefndar hvað það mál varðaði.

Varðandi hitt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi held ég að það sé athugandi að skoða hvort ekki megi leggja fram áfangaskýrslu um það starf sem liggur fyrir og hvaða forsendur þurfi til að koma þannig að menn geti þá haft það við athugun á myndun nýrrar ríkisstjórnar þegar að því kemur eftir kosningar í vor.