Þingvellir

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:57:48 (2900)

2003-01-22 14:57:48# 128. lþ. 63.2 fundur 111. mál: #A Þingvellir# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli sem mér og mörgum öðrum þingmönnum er næsta kært. Líka finnst mér mikið til um þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að það sé stefnt að því að þessu máli verði lokið eða fyrsta áfanga þess á 60 ára lýðveldisafmælinu. Mér finnst það vera ákaflega vel við hæfi.

Innan Þingvallanefndar hefur verið mikill áhugi á þessu máli og ég vil nota þetta tækifæri og þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Birni Bjarnasyni, fyrir ákaflega gott starf að þessum málum.

Ég hjó eftir því, herra forseti, að það var tillaga menntmrh. og umhvrh. sem var samþykkt í ríkisstjórninni. En er ekki svo, ef maður horfir á hina stjórnskipulegu stöðu Þingvallanefndar sem heyrir beint með lögum undir Alþingi en nýtur skjóls af forsrn. sem hefur tekið svari nefndarinnar ef þess þarf --- er ekki alveg ljóst að málið, þegar það verður lagt fyrir og verður endanlega samþykkt, verður á forræði Þingvallanefndar með því sérstaka sambandi sem nefndin hefur við forsrn.?