Þingvellir

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:59:56 (2902)

2003-01-22 14:59:56# 128. lþ. 63.2 fundur 111. mál: #A Þingvellir# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Oft erum við þingmenn að hreyfa málum gagnvart ríkisstjórn þar sem við erum að þrýsta á eða jafnvel agnúast út í ríkisstjórnina og það verður oft eins konar rex út úr þessu hjá okkur. En ég verð að segja að varðandi þessa fyrirspurn er ég afskaplega ánægð með þetta svar og ég fagna því að við séum komin þangað sem hér hefur verið lýst og vænti þess að þetta mál verði komið vel í höfn fyrir 60 ára afmæli lýðveldisins 2004. Mér finnst að Þingvallanefnd og ríkisstjórnin hafi haldið mjög vel á þessu máli. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við höfum líka átt hauk í horni þar sem Birgitta Hoberg er. Hún hefur sýnt mikinn áhuga á Þingvöllum og hún er manneskjan sem hefur undirbúið umsóknir og náð farsælli niðurstöðu með þessa staði í Svíþjóð sem ég hef nefnt, eina 12 staði, og hefur komið hingað til lands allmörgum sinnum. Hún er komin í þá nefnd hjá UNESCO sem fjallar um umsóknirnar þannig að það er eflaust okkur til framdráttar fyrir utan það að faglega er staðið að öllum hlutum.

Um leið og maður fagnar því að svona mikilvægt mál sé að komast í höfn skulum við samt standa saman um að stefna að því að fleiri staðir, svo sem Skaftafell, Víðimýrarkirkja í Skagafirði og Surtsey, komist líka á þessa skrá því það skiptir mjög miklu máli fyrir Ísland sem er svo sérstakt að eiga nokkra staði á heimsminjaskránni.

Ég þakka mjög vel fyrir þetta svar hæstv. forsrh.