Alþjóðasakamáladómstóllinn

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:16:36 (2908)

2003-01-22 15:16:36# 128. lþ. 63.4 fundur 179. mál: #A alþjóðasakamáladómstóllinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem kunnugt er hafa bandarísk stjórnvöld farið þess á leit við stjórnvöld annarra ríkja að gerðir verði tvíhliða samningar milli Bandaríkjanna og viðkomandi ríkja er feli í sér gagnkvæma skuldbindingu samningsríkjanna um að afhenda ekki þegna hvors annars til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Bandarísk stjórnvöld afhentu íslenskum stjórnvöldum drög að slíkum tvíhliða samningi til athugunar í júlí sl. og hafa bandarískir embættismenn í kjölfarið kynnt málið á óformlegum fundum með íslenskum embættismönnum. Skrifstofa þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins hefur málið til skoðunar.

Norrænu ríkin hafa haft samráð sín á milli um málið, en sjónarmið þeirra í málefnum Alþjóðlega sakamáladómstólsins fara mjög saman. Norðurlöndin hafa jafnframt fylgst náið með ítarlegri skoðun Evrópusambandsins á málinu. Niðurstaða sambandsins er sú að það mundi fara í bága við skuldbindingar aðildarríkja Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn að gera tvíhliða samning við Bandaríkin á grundvelli núverandi samningsdraga.

Hins vegar hefur Evrópusambandið lýst yfir vilja til þess að halda áfram að ræða þær áhyggjur sem bandarísk stjórnvöld hafa af því að dómstóllinn verði hugsanlega misnotaður í pólitísku skyni gegn bandarískum þegnum og leitað leiða til að koma til móts við sjónarmið þeirra. ESB hefur tilgreint ákveðin grundvallaratriði sem það telur að hugsanlegir tvíhliða samningar aðildarríkja sambandsins við Bandaríkin verði að virða og jafnframt samþykkt ítarlegri leiðbeinandi meginreglur fyrir aðildarríkin í þessu sambandi.

Við teljum innlegg Evrópusambandsins í þessu máli vera gagnlegt og leggjum áherslu á að fylgjast áfram með þróun málsins á vettvangi sambandsins og halda áfram samráði við hin norrænu ríkin.

Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að standa vörð um Rómarsamþykktina um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, en jafnframt teljum við rétt að haldið verði áfram að ræða áðurnefndar áhyggjur bandarískra stjórnvalda og leita leiða til að koma til móts við sjónarmið þeirra.