Alþjóðasakamáladómstóllinn

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:19:21 (2909)

2003-01-22 15:19:21# 128. lþ. 63.4 fundur 179. mál: #A alþjóðasakamáladómstóllinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu ber íslenskum stjórnvöldum að standa vörð um Rómarsamþykktina sem við höfum bæði undirritað og samþykkt eða fullgilt á hinu háa Alþingi.

Ég verð að segja alveg eins og er að mig óraði ekki fyrir því svari sem hæstv. utanrrh. kom hér með, þ.e. að það væri til athugunar hjá ríkisstjórn Íslands að verða við kröfum ríkisstjórnar Bandaríkjanna í þessum efnum. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að með því að taka það til athugunar að gera slíkan tvíhliða samning sem á að undanskilja bandaríska þegna frá framsalskröfunni --- gott og vel, hæstv. utanrrh. benti á að reglurnar sem ráðherrar ESB samþykktu í haust væru gagnlegt innlegg í þessa umræðu, enda eru þær það. En þar sem það er jafnframt til umræðu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að gera tvíhliða samning við Bandaríkin um að um bandaríska þegna gildi ekki sömu reglur þegar kemur að því að rétta í glæpum, stríðsglæpum, fjöldamorðum, glæpum gegn mannkyni, þá verð ég að spyrja mig, hæstv. forseti: Á hvaða leið erum við þá?

Ég get skilið að menn hafi áhyggjur af því að Alþjóðasakamáladómstóllinn gæti verið misnotaður af pólitískum ástæðum. En það á jafnt við um öll þau ríki sem í honum taka þátt. Það á ekkert meira við um Bandaríkin en önnur ríki sem undirritað hafa og staðfest samninginn um Alþjóðasakamáladómstólinn. Ég verð því að lýsa miklum vonbrigðum mínum með það svar sem hér hefur verið gefið af hæstv. utanrrh.