Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:24:00 (2911)

2003-01-22 15:24:00# 128. lþ. 63.5 fundur 330. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í lögum um hvalveiðar frá 1949 er tekið fram í 1. gr. að þeir einir sem fengið hafa leyfi sjávarútvegsráðuneytisins hafi rétt til að veiða hvali hér við land.

DV hafði það eftir sjútvrh. í sumar að eftir því sem hann best vissi hefði aldrei verið gefið út leyfi fyrir veiðum á smáhvelum og ekki verið sótt um þau heldur nema e.t.v. vegna rannsóknarverkefna. Þessar upplýsingar gaf ráðherrann vegna fréttaflutnings blaðsins af ítrekuðum veiðum á smáhvelum inni á Eyjafirði. Í viðtalinu kom jafnframt fram hjá ráðherra að ef menn hefðu áhyggjur af þessu ættu þeir að snúa sér til lögreglunnar.

Þess vegna er ástæða til að spyrja, herra forseti: Hver hefur eftirlit með því að veiðar á smáhvelum séu ekki stundaðar án leyfa? Er það bara lögreglan? Hefur Fiskistofa hér ekkert hlutverk? Í öðru lagi: Hvernig hafa svona brot verið meðhöndluð ef það er ljóst að það hefur komið fram kæra?

Það er jafnframt ljóst, herra forseti, að hvalaskoðunarfyrirtækin telja hagsmunum sínum ógnað ef ekki er farið að lögum og þá settar reglur um nýtingu hvalastofnanna, hvort heldur er til að sýna eða veiða, a.m.k. fari það ekki saman að byggja upp þessa mikilvægu grein ferðaþjónustunnar og að ólöglegar og eftirlitslausar veiðar á hvölum séu jafnframt stundaðar á slóðinni.

Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar byggja afkomu sína á þeirri nýtingu hvalastofnanna hér við land að sýna þá bæði innlendum og erlendum ferðamönnum og hefur Ísland verið talið einn besti hvalaskoðunarstaður í heimi, enda hefur vöxtur í greininni verið hreint ævintýralegur. Fjöldi þeirra sem fara í hvalaskoðunarferðir hefur nær þrítugfaldast á innan við áratug. Beinar tekjur af hvalaskoðun eru taldar hafa numið um 800 milljónum á síðasta ári og í Fréttablaðinu í dag tala menn um 800--1.300 millj. kr.

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að stjórnvöld skoði í fullri alvöru hvernig bregðast á við veiðum smáhvela við landið og hvort hægt er að nýta þessa auðlind þannig að hvalaskoðunarfyrirtækin geti dafnað í samræmi við þann mikla áhuga sem er á tilboðum þeirra og að veiðar á smáhvelum geti jafnframt farið fram sé það vilji stjórnvalda, en þá undir eftirliti og án þess að það valdi truflun við sýningu dýranna.

Engin gögn liggja fyrir um að þetta tvennt geti farið saman, en mikið er talað um að það geti ekki farið saman þannig að það þarf augljóslega að setja reglur, bæði um hvalaskoðun og veiðar, ef það er vilji stjórnvalda að veiðar á smáhvelum haldi áfram.

Ég vil þess vegna kalla fram viðhorf hæstv. sjútvrh. til þess einnig hvort hann telji að veiðar á smáhvelum og hvalaskoðun geti farið saman og hvort það er þess vegna sem ekkert hefur verið gert og svo einnig hvort ráðherrann fyrirhugi endurskoðun á lögunum um hvalveiðar, m.a. með tilliti til mismunandi nýtingar hvalastofnanna.

Nú er ljóst að Íslendingar stefna á hvalveiðar þannig að það er mjög mikilvægt að þessi mál verði skoðuð með tilliti til þess að þeir sem nú eiga mikilla hagsmuna að gæta varðandi nýtingu hvalastofnanna fái áfram notið þeirrar atvinnu sem þeir hafa við það.