Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:32:52 (2914)

2003-01-22 15:32:52# 128. lþ. 63.5 fundur 330. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Veiðar á smáhvölum hér við land hafa tíðkast áratugum ef ekki árhundruðum saman og ævinlega, held ég, hefur verið litið svo á í framkvæmdinni að þær teldust mönnum frjálsar. Sá sem hér stendur hefur iðulega skotið sér hnísu í soðið og hyggst halda því áfram hvað svo sem menn gera í þessu, og telur að hann hafi þar sér til fulltingis m.a. lög um hefð frá 1906.

Ég held að vaxandi hvalaskoðun hér við land sé bara af hinu góða og sú atvinnustarfsemi eigi vel að geta blómstrað í sátt við þá náttúrunýtingu sem menn hafa viðhaft hér á landi um aldir. Ég tel að það væri afturför ef mönnum væri bönnuð eða meinuð nýting smáhvelanna með þeim hógværa hætti sem ég held að reyndar hafi viðgengist hér hjá veiðimönnum.