Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:38:44 (2918)

2003-01-22 15:38:44# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Um langt árabil hefur verið rætt um aukna samræmingu á félagsþjónustu við aldraða á vegum sveitarfélaga og heimahjúkrunar og þjónustu öldrunarstofnana sem eru á vegum ríkisins. Ég hef ekki lengur tölu á þeim fjölda funda og ráðstefna sem ég hef setið á síðustu tveim áratugum sem hafa ályktað í þessa veru. En samt hefur hægt miðað.

Núverandi fyrirkomulag um rekstur þjónustu við aldraða er sígilt dæmi um tvískipta ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin bera ábyrgð á og fjármagna alla félagslega þjónustu við aldraða en ríkið ber ábyrgð á og fjármagnar rekstur heimahjúkrunar og öldrunarstofnana. Það er því enginn hvati fyrir sveitarfélögin að efla félagsþjónustu á sínum vegum til að draga úr þörf fyrir stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Afleiðingin er sú að hlutfall aldraðra á stofnunum hér á landi er mun hærra en á hinum Norðurlöndunum. Til dæmis eru um 25--75% fleiri aldraðir yfir 80 ára á öldrunarstofnunum hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Það bendir til að allt of mikil áhersla sé lögð á það hér á landi að beina öldruðum á öldrunarstofnanir, á dýrustu þjónustuna. Því er ljóst að áherslubreytinga er þörf í þessum málaflokki.

Á síðustu rúmum tíu árum hefur farið fram merkileg tilraun undir merkjum reynslusveitarfélaga á þessu sviði. Tvö sveitarfélög, Akureyrarbær og Hornafjarðarbær, tóku yfir og sameinuðu rekstur öldrunarmála og heilsugæslu. Markmið sveitarfélaganna var fyrst og fremst að draga úr stofnanadvöl með eflingu og samhæfingu heimaþjónustu. Markmið heilbrrn. var hins vegar að leggja grunn að framtíðarskipan verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga á sviði öldrunar- og heilbrigðismála.

Í skýrslu félmrn. frá árinu 2000 er lagt mat á árangur af þessari tilraun. Niðurstaðan er m.a. eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir aldraða jókst á reynslutímabilinu jafnframt sem dró úr stofnanaþjónustu.

Í öðru lagi: Þeir sem lögðust inn á öldrunarstofnanir til langdvalar eru veikari en áður, sem bendir til þess að markmiðið um að gera einstaklingum kleift að búa lengur heima hjá sér hefur náðst.

Í þriðja lagi: Nýting opinberra fjármuna til öldrunarþjónustu var betri. Framlag ríkisins til reksturs öldrunarþjónustu í þessum sveitarfélögum lækkaði um 4,5--4,8% að raunvirði á árunum 1997--1999, m.a. vegna breyttra áherslna. Þá má m.a. nefna að fjöldi þeirra sem njóta heimahjúkrunar jókst um 30--40% milli áranna 1996--1999 í þessum sveitarfélögum og hvíldarinnlagnir aldraðra á Hornafirði jukust um 400% á reynslutímabilinu.

Í fjórða lagi batnaði þjónusta við aldraðra.

Í ljósi þessa góða árangurs hjá reynslusveitarfélögunum, sem ég nefndi hér áðan, af samræmingu á þessum þjónustuþáttum varpa ég fram þeirri fyrirspurn til heilbrrh. hvort hann telji að flytja eigi þessa þætti á eina hendi til sveitarfélaga og hvort hæstv. heilbrrh. telji að næg þekking og reynsla hafi fengist með reynslusveitarfélagaverkefninu til að halda áfram á þessari braut.