Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:51:33 (2924)

2003-01-22 15:51:33# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér í þessari fyrirspurn og öðrum þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunum.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að hann tók undir hagkvæmni þessa fyrirkomulags sem ég nefndi í ræðu minni, að samþætta þessa þjónustu betur en gert er í dag og færa hana á eina hendi, enda kom það einnig fram í ræðu hæstv. ráðherra að þetta er ein af tillögum starfshóps forsrh. sem skilaði skýrslu í desember sl., þ.e. að samþætta þetta í meira mæli en hingað til, enda er það í samræmi við vilja hinna öldruðu.

Í ræðu hæstv. ráðherra kom einnig fram að ekki væri komin næg reynsla á þetta fyrirkomulag og hann vildi athuga betur hvernig þessu er háttað. Í því sambandi langar mig til að benda á reynslu Akureyrarbæjar, en í gögnum sem við í fjárln. fengum frá Akureyrarbæ í ferð okkar norður síðasta haust kom fram að á síðasta áratug hefur öldrunarrýmum á Akureyri fækkað um 12% á sama tíma og íbúum 67 ára og eldri hefur fjölgað um 16%. Hlutfall þeirra sem eru 80 ára og eldri á stofnunum hefur lækkað verulega. Með samhæfingu þjónustuþátta hefur sveitarfélagið aukið þjónustu við aldraða í heimahúsum með fjölgun dagvistarrýma um 100%, 56% fjölgun þeirra sem njóta heimahjúkrunar og 64% fjölgun þeirra sem njóta stuðnings við heimilishald.

Það er óumdeilt að áherslubreytingin hefur leitt til bættrar þjónustu við aldraða og þeir studdir til að standa lengur á eigin fótum utan stofnana sem er í samræmi við einlægar óskir flestra eldri borgara.

Það er því skoðun mín að komin sé nægileg reynsla til að spýta í lófana til að láta þetta formgera sig sem allra fyrst. Það er engin spurning að þetta er hagkvæmara fjárhagslega og þetta er æskilegra út frá sjónarhorni hinna öldruðu.